Stjórnvöld funda á morgun með SA og ASÍ

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsendur fjármálastefnunnar eru brostnar og vinna hafin við nýja. Þetta kom fram í munnlegri skýrslu Katrínar Jakobsdóttir forsætisráðherra um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna kórónuveirunnar.

„Til að vinna gegn slakanum hefur ríkisstjórnin undirbúið fjárfestingarátak og verða slíkar fjárfestingar að vera fjölbreyttar,“ sagði Katrín. Framkvæmdir í byggingar- og samgöngumálum væru nauðsynlegar en ekki síður fjárfestingar í tækni, hugviti, rannsóknum og skapandi greinum.

Stjórnvöld munu á morgun funda með Alþýðusambandinu og Samtökum atvinnulífsins, en þar verða til umræðu þær aðgerðir sem stjórnvöld hyggjast ráðast í til að styðja við atvinnulíf og launþega, til viðbótar við þær sem kynntar voru á þriðjudag. 

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Katrín að ákvörðun Banda­ríkja­stjórn­ar hefði aukið enn á óviss­una og kallaði á frek­ari aðgerðir, en þær hafa enn ekki verið kynntar. Nefndi Katrín einungis tilvonandi lagasetningu um að fólki í sóttkví sukli tryggð laun, en hún byggist á samkomulagi ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins frá í síðustu viku.

Ýmsar tillögur um innspýtingu

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfðu ýmsar tillögur. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði að ástæða væri til að afnema gistináttagjald ótímabundið, en ríkisstjórnin hafði áður lagt til tímabundna niðurfellingu. Þá væri ástæða til að lækka tryggingagjald um eitt prósentustig, en sú aðgerð myndi spara fyrirtækjum 10-15 milljarða króna á ársgrundvelli.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði innspýtingu hins opinbera nauðsynlega. Á tímum niðursveiflu hefði hingað til tíðkast að innspýtingin kæmi einkum fram í framkvæmdum sem sköpuðu „hefðbundin karlastörf“, og nefndi sem dæmi húsbyggingar og vegagerð.

Á sama tíma spöruðu stjórnvöld í velferðarkerfinu, í heilsugæslu og skólum þar sem margar konur vinna. Sagði Oddný að þetta bæri að varast og að fjárfestingar ríkisstjórnarinnar mættu ekki einungis birtast í byggingarframkvæmdum heldur einnig í velferðarkerfinu.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði þingflokk Pírata leggja til að ríkisstjórnin flýtti byggingu nýs Landspítala til að örva hagkerfið. Þá benti hún á að úr því forsendur fjármálastefnu væru brostnar, þá hlytu forsendur ríkisstjórnarinnar vegna sölu Íslandsbanka að vera brostnar. „Og ég kalla eftir því að ríkisstjórnin falli frá þeim áformum og nýti bankana frekar í eigu ríkisins til að fjárfesta í hagkerfinu,“ sagði Þórhildur Sunna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert