Veikur farþegi fékk lögreglufylgd eftir flug

Vélin lenti í Keflavík á fimmta tímanum.
Vélin lenti í Keflavík á fimmta tímanum. mbl.is/Hallur Már

Íslenskum farþega, sem kom með flugi Icelandair frá München til Keflavíkur nú á fimmta tímanum, var fylgt af lögreglu frá borði, en hann hafði mætt í flugið úti og þegar hann var kominn um borð tilkynnt að hann væri með sjúkdómseinkenni.

Bjarni Helgason, blaðamaður á mbl.is, var í flugvélinni og segir hann að óánægju hafi gætt í flugvélinni með að maðurinn hafi ekki tilkynnt veikindin fyrr, en rýma þurfti nokkrar sætaraðir í vélinni vegna hans.

Þegar lent var í Keflavík kom lögregla um borð og ræddi við flugstjórann og svo tæplega hálftíma seinna var farþegum leyft að fara frá borði. Manninum var seinast fylgt frá borði af lögreglunni.

Að sögn Bjarna voru fjölmargir í vélinni að koma frá áhættusvæðum í Austurríki, en sjálfur hafði hann verið í skíðaferð í Tíról. Var hann og þeir sem voru með honum í hóp á leið í tveggja vikna sóttkví.

mbl.is