Veiran ennþá í vexti - 900 í sóttkví

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og Alma Möller landlæknir á fundinum í …
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og Alma Möller landlæknir á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í hádeginu í dag höfðu verið rannsökuð tæplega þúsund sýni á veirufræðideild Landspítalans. Samkvæmt síðustu tölum hafa 109 einstaklingar greinst með veiruna. Langflestir þeirra eru einstaklingar sem hafa verið að koma frá skíðasvæðum í Ölpunum en auk þess hefur bæst við fólk sem var að koma frá Bandaríkjunum. Innlend smit út frá þessum einstaklingum eru nú 24. 

„Það er greinilegt að þessi veira er ennþá í vexti og sérstaklega með einstaklingum sem eru að koma hingað inn til lands. Það er líka athyglisvert að það eru einstaklingar að veikjast og greinast núna út frá þessum einstaklingum, og jafnvel viku eftir að smit átti sér stað,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi í dag. 

Enn unnið að því að hefta útbreiðsluna

„Við erum að byrja í þessum faraldri og við eigum eftir að sjá hvernig útbreiðslan er. Það eru núna um 900 einstaklingar í sóttkví út frá þessum tilfellum og við höldum ennþá í þessa aðgerð, sem við teljum mjög mikilvæga, það er að segja þessi fyrsta stigs aðgerð til að stemma stigu við svona faraldri, sem miða að því að hefta útbreiðslu veirunnar,“ sagði Þórólfur. 

Í dag liggja tveir einstaklingar inni á Landspítalanum. Smitsjúkdómalæknar þar fylgjast náið með þeim sem eru í einangrun. 

Margar aðgerðir séu í gangi, s.s. einangrun sem er beitt á fólk sem greinist, sóttkví á þá sem hafa umgengist þá einstaklinga og hugsanlega smitast og svo samfélagslegar aðgerðir sem miði að því að hvetja einstaklinga til að huga að hreinlæti og vera meðvituð um smitleiðir veirunnar. Taka upp ákveðnar sýkingavarnir til að verja sig og aðra fyrir sýkingu. M.a. með að halda ákveðinni fjarlægð, a.m.k. tvo metra á milli einstaklinga, og hvetja fólk til að sækja ekki fjölmenn mannamót og vera innan um hópa þar sem veikindi geta verið til staðar. 

Viðbrögð fyrirtækja og einstaklinga ánægjuleg

Þórólfur sagði að það væri ánægjulegt að sjá að margir einstaklingar og fyrirtæki hefðu tekið þetta upp. Hafa beitt ýmsum aðgerðum til að auka sýnar sótt- og sýkingarvarnir. 

„Auk þess höfum við verið með mjög ítarlegar leiðbeiningar fyrir viðkvæma hópa. Það er að segja þeir sem við viljum helst ekki að fái þessar sýkingar, hvernig þeir geta forðast sýkingar og leiðbeiningar til þeirra nánustu aðstandenda til dæmis, sem miða einkum að hreinlætisaðgerðum og því að forðast mannamót.“

Færumst nær samkomubanni

Varðandi samkomubann sagði Þórólfur að það væri enn í skoðun.

„Við höfum sagt það undanfarna daga að við færumst æ nærri samkomubanni. Samkomubannið er ein leið að auki til viðbótar við þær aðgerðir sem ég var að lýsa áðan til að hefta smit veirunnar. Það er hins vegar óljóst hvernig á að beita samkomubanni,“ sagði Þórólfur og benti á að Norðurlöndin hafi t.d. beitt mjög mismunandi aðferðum.

Ekki sé til ein leið hvernig eigi að beita slíku banni. Þetta sé hins vegar í vinnslu og það sé heilbrigðisráðherra að hafa síðasta orðið um það. Það ætti að skýrast á allra næstu dögum. 

Næsta skref að huga að skaðminnkandi aðgerðum og hjálpa veikum

Þórólfur sagði að þetta væru fyrstu aðgerðirnar til að hefta útbreiðslu veirunnar. Næsta skref í baráttunni sé að beina spjótunum meira að skaðaminnkandi aðgerðum. Hætta sóttkví, draga úr skimunum í samfélaginu og hjálpa veikum einstaklingum og styrkja heilbrigðiskerfið. 

„Við erum að gera það núna en það getur vel verið að sá tími komi að það þurfi að slaka á hinum aðgerðunum og bæta þá í þarna,“ sagði Þórólfur og bætti við að það væri misjafnt hvernig þjóðir hefðu gert þetta. Danir hefðu t.d. hætt þessum fyrstu aðgerðum sem eru nú í gangi á Íslandi og beini spjótum sínum að skaðaminnkandi aðgerðum. Sömuleiðis Svíar. „Það er ekki alveg samhljómur í því sem menn eru að gera. Við höldum ennþá að það sé mjög mikilvægt að hefta útbreiðsluna sem mest með þessum einangrunaraðgerðum sem við erum að beita.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert