Breytingagjald afnumið tímabundið

Í tilkynningu Icelandair til farþega sinna segir jafnframt að starfsfólk …
Í tilkynningu Icelandair til farþega sinna segir jafnframt að starfsfólk flugfélagsins sé vel þjálfað og að í ljósi aðstæðna hafi allar verklagsreglur verið endurskoðaðar, sem og þrif og þjónusta um borð. mbl.is/Sigurður Bogi

Icelandair hefur boðið þeim farþegum sem eiga bókað flug með félaginu á næstu vikum að breyta dagsetningum á flugi, á meðan kórónuveiruástandið varir, án þess að greiða breytingagjald.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem flugfélagið hefur sent viðskiptavinum sem eiga bókaða flugferð. Þar segir að áhersla sé lögð á sveigjanleika og að upplýsingar á vef félagsins um endurbókanir og breytingar breytist ört, og eru farþegar beðnir að kynna sér tilmæli Almannavarna og Landlæknis reglulega fram að fyrirhugaðri flugferð.

Í tilkynningu Icelandair til farþega sinna segir jafnframt að starfsfólk flugfélagsins sé vel þjálfað og að í ljósi aðstæðna hafi allar verklagsreglur verið endurskoðaðar, sem og þrif og þjónusta um borð. Þá er mælt með því að farþegar hafi eigin vatnsflösku meðferðis á ferðalaginu, sem og sótthreinsivökva sem stenst viðmið um magn vökva í handfarangri.

„Að lokum viljum við leggja áherslu á að vellíðan og öryggi farþega okkar og starfsmanna er ávallt í forgangi hjá Icelandair. COVID-19-faraldurinn hefur haft mikil áhrif á starfsemi félagsins og okkur þykir miður ef þær ráðstafanir sem við höfum þurft að grípa til hafa áhrif á ferðir þínar. Við munum senda tilkynningar um stöðu mála þegar við á og gera okkar allra besta til að uppfylla þarfir farþega okkar við þessar óvenjulegu aðstæður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert