Samkomubann á Íslandi

Frá blaðamannafundinum í Ráðherrabústaðnum.
Frá blaðamannafundinum í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkomubann hefur verið sett á hérlendis vegna kórónuveirunnar.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra efndi til í Ráðherrabústaðnum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi því á fundinum að sóttvarnalæknir hefði sent heilbrigðisráðherra tillögu um samkomubann. Engin fordæmi væru fyrir slíku í lýðveldissögu Íslands.

„Okkar leiðarljós hefur hingað til verið að fylgja ráðum okkar besta heilbrigðisstarfsfólks,“ sagði hún. 

Takmarka skal samkomur í fjórar vikur frá miðnætti 15. mars, aðfaranótt mánudags. Um er að ræða samkomur þar sem fleiri en 100 manns koma saman, að sögn heilbrigðisráðherra. 

Á viðburðum þar sem færri koma saman er gert ráð fyrir því að tveir metrar séu á milli fólks. Gert er ráð fyrir því að skólar á framhalds- og háskólastigi loki. „Ég vænti þess að það takist gott samstarf með þjóðinni,“ sagði Svandís.

Starf grunnskóla heldur áfram með ákveðnum skilyrðum. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á leið á fundinn.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á leið á fundinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rétti tíminn núna

„Ég held að tími til að gera þetta sé akkúrat núna,“ sagði Þórólfur Guðnason um samkomubannið. Hann hafi lagt það til að fenginni umsögn og ráðleggingum frá fjölmörgum aðilum.

„Þetta er verkefni okkar allra. Boð og bönn stjórnvalda munu ekki ráða úrslitum um hversu hratt veiran fer yfir landið,“ sagði hann og bætti við að það sé undir okkur komið hver útkoman verður.

„Við erum að greina fjöldann allan af tilfellum hjá einstaklingum sem eru í sóttkví,“ nefndi hann. Um tvö tilfelli kórónuveirunnar er að ræða þar sem engin tengsl eru við útlönd eða sýkta einstaklinga. Það á ekki að koma á óvart. Reynt er takmarka útbreiðsluna eins og hægt er.

„Skiptir gríðarlegu máli“

„Ég heiti á okkur öll að láta þetta takast því það skiptir gríðarlegu máli fyrir almannaheill í þessu landi,“ sagði Katrín. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert