Starfsfólk ÍE greinir sýni í nótt

Kári Stefánsson var viðstaddur skimanirnar í dag.
Kári Stefánsson var viðstaddur skimanirnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega 500 manns mættu í skimun fyrir kórónuveirunni hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag, á fyrsta degi skimana. Markmiðið er að 1.000 sýni verði tekin daglega í framhaldinu en til þess að hægt sé að skima og greina sýnin vinnur starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar bæði á nóttunni og um helgar. Kári Stefánsson, forstjóri fyrirtækisins, segir að „ef allt gangi eins og í lygasögu“ fáist niðurstöður vegna fyrstu sýnanna annað kvöld. 

Eik fasteignafélag, sem er til húsa á sama stað og þjónustumiðstöð Íslenskrar erfðagreiningar, hefur gagnrýnt framkvæmd skimananna en fyrirtækið sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag vegna þess. Kári segir að forsvarsfólk Íslenskrar erfðagreiningar hafi fundað með aðilum í húsinu í dag og nú hafi hann á tilfinningunni að „allir séu saman í liði“.

„Það sem mér finnst flottast af öllu er það hvernig þetta fólk sem vinnur hjá mér í Íslenskri erfðagreiningu tekst á við þetta. Það verður unnið alla helgina, það verður byrjað að greina þessi 500 sýni á miðnætti hjá okkur og síðan verður unnið í alla nótt. Þetta er fólk sem gerir þetta af eigin hvötum. Það hefur enginn beðið það um að vinna á nóttunni eða um helgar. Það bara kemur og ætlar að gera þetta.“

Eliza Reed, forsetafrú, var á meðal þeirra sem mætti í …
Eliza Reed, forsetafrú, var á meðal þeirra sem mætti í skimun. Eggert Jóhannesson

Minni efnishyggja og meiri væntumþykja

Kári segir að faraldurinn gæti haft jákvæðar afleiðingar að einhverju leyti.

„Kannski þjappar hann okkur betur saman. Kannski komum við út úr þessari farsótt með minni efnishyggju og meiri væntumþykju hvert fyrir öðru. Þetta hljómar náttúrlega eins og ég sé rómantískt „leftover“ frá sjöunda áratugnum en ég er það. Það er smá möguleiki að þetta þjappi okkur saman sem samfélagi. Að minnsta kosti þegar horft er á þetta fólk sem er að takast á við þennan faraldur. Það eru allir reiðubúnir til þess að gera allt milli himins og jarðar. Það spyr enginn „hversu lengi þarf ég að vinna“ eða „fæ ég borgað fyrir þetta“. Það eru bara allir að demba sér út í þetta af fullum krafti.“

Spurður hvort Íslensk erfðagreining hafi nægilega marga starfsmenn á sínum snærum til að fást við alla þessa vinnu segir Kári:

„Til þess að halda þessu gangandi svo við náum að greina 1.000 sýni daglega þarf 50 manns niðri í þjónustumiðstöð. 50 starfsmenn vinna þar en tíu þeirra gátu ekki unnið yfir helgina vegna þess að þau eiga lítil börn þannig að það var hringt í tíu starfsmenn sem vinna í Íslenskri erfðagreiningu í Vatnsmýrinni og hver einasti sem var beðinn var reiðubúinn til þess að koma. Ég á ekki orð yfir því hvað mér finnst þetta flott fólk.“

Skimun fyrir kórónuveirunni hófst hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag.
Skimun fyrir kórónuveirunni hófst hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrstu niðurstöður væntanlegar annað kvöld „ef allt gengur eins og í lygasögu“

Kári segir að hann geti ekki alveg sagt til um hvenær fyrstu niðurstöður úr sýnatökunni berist. 

„Ég get ekki lofað því vegna þess að þetta er allt að fara af stað. Það fer allt eftir því hvernig niðurstöður koma út en ef allt gengur eins og í lygasögu ættu niðurstöður að vera til í lok dagsins á morgun en vegna þess að prufukeyrslan er í gangi núna veit ég ekki hvernig það kemur út.“

Aðspurður segir Kári að gagnrýni frá fasteignafélaginu Eik hafi verið mjög eðlileg.

„Upplýsingagjöf frá okkur var ekki nægilega mikil. Við vorum að reyna að koma þessu saman á heimsmetstíma. Við vorum gjörsamlega upp fyrir haus í að sjá til þess að það væri hægt að gera þetta. Það er ósköp eðlilegt þegar þannig stendur á að mönnum verði á mistök. Okkar mistök voru þau að reikna ekki með því að við þyrftum að upplýsa fólkið í húsinu. Við áttum fund með þeim og útskýrðum hvað væri að gerast og bentum fólki á að bara með því að þola okkur þarna á fjórðu hæðinni væru þau að leggja sitt af mörkum til baráttunnar við þennan faraldur. Það tóku allir því ofsalega vel. Mér finnst eins og þau séu öll komin í okkar lið.“

mbl.is