Aðrar þjóðir líti til viðbragða Íslands

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir aðrar þjóðir líta til viðbragða …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir aðrar þjóðir líta til viðbragða íslenskra stjórnvalda vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Farið var yfir aðgerðir íslenskra stjórnvalda vegna kórónuveirunnar á ríkisstjórnafundi í dag auk þess sem staðan í öðrum ríkjum var tekin fyrir. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarmálaráðherra, segir aðrar þjóðir líta til viðbragða íslenskra stjórnvalda vegna veirunnar. 

Guðlaugur segir í samtali við mbl.is að fundurinn hafi gengið vel. 

„Við fórum yfir samantekt frá heilbrigðisráðherra yfir það sem við erum búin að gera frá því að við hófum þessar aðgerðir 27. janúar. Það er alveg ljóst að það sem við höfum gert er í samræmi við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er búin að vera að ráðleggja þjóðum að gera,“ segir Guðlaugur.

„Við erum auðvitað í þeirri stöðu að við erum búin að taka sýni hjá mun fleirum en í þeim löndum sem við getum borið okkur saman við og sömuleiðis beitt sóttkví og öðrum ráðstöfunum sem mælst hefur verið til og það kemur okkur til góða.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra að loknum fundinum í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

Þá var á fundinum farið yfir stöðu Íslendinga á ferðalögum erlendis á tímum heimsfaraldurs, en mbl.is greindi frá því í dag að vaktir hjá borgarþjónustunni hafi verið margfaldaðar vegna anna eftir að Bandaríkin, Pólland, Danmörk og fleiri lönd sem Íslendingar ferðast mikið til lokuðu landamærum sínum. 

Geta ekki séð fyrir hvaða lönd loka á næstunni

„Við fórum síðan yfir stöðuna í öðrum löndum sem er mjög kvik. Hlutarnir breytast mjög hratt eins og allir vita og við lögðum það til á fundinum að ráðleggja Íslendingum á ferðalögum að í fyrsta lagi ferðast ekki nema brýn nauðsyn beri til og sömuleiðis ráðleggjum við þeim Íslendingum sem eru á ferðalagi að flýta heimför. Það er ekki bara af því að það er heimsfaraldur heldur ekki síður vegna þess að við getum ekki séð það fyrir hvaða lönd muni loka á næstunni, það er ekki hægt að útiloka að það gerist og það getur haft mikil óþægindi í för með sér fyrir íslenska ferðalanga.“

Aðspurður hvort ríkisstjórnin líti til annarra landa við töku ákvarðana vegna faraldursins segir Guðlaugur að hér hafi stjórnvöld alltaf farið eftir tilmælum sérfræðinga miðað við stöðuna hér á landi. 

„Frá fyrsta degi höfum við farið eftir ráðleggingum færustu sérfræðinga og það er uppleggið, við tókum þetta alvarlega frá fyrsta degi og maður finnur það að þjóðir eru að líta til okkar þegar kemur að þessum málefnum. En það er bara eitt sem vakir fyrir okkur og það er að gæta hagsmuna Íslendinga, ekki aðeins hér á landi heldur ekki síður þeirra sem eru erlendis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert