Eldri borgarar hreyfi sig og læri á spjaldtölvur

Þórunn og Stefán Eiríksson á fundinum í dag.
Þórunn og Stefán Eiríksson á fundinum í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, mun í dag senda frá sér dreifibréf sem nær til um 26 þúsund félagsmanna með ýmsum leiðbeiningum í tengslum við kórónuveiruna.

Á blaðamannafundi í Skógarhlíð benti hún á mikilvægi þess að eldri borgarar hreyfðu sig. „Ef menn setjast í sófann og gera ekkert er hætta á að ónæmiskerfið hrynji,“ sagði hún.

Hún benti eldri borgurum á að nota tímann til góðs og reyna til dæmis að læra á spjaldtölvu hafi þeir ekki þegar gert það. Meðal annars væri mikilvægt fyrir eldri borgara að nota spjaldtölvur á hjúkrunarheimilum. „Þetta getur skipt sköpum um vellíðan einstaklinga þegar einstaklingar geta ekki komið í heimsókn nema í takmörkuðum mæli.“

Hún sagði mikilvægt að fólk styddi við bakið á sínum nánustu og styrkti sambönd. Einnig sagði hún nauðsynlegt að huga að andlega þættinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert