Spánn, Frakkland og Þýskaland teljast til hááhættusvæða

Íslendingar sem koma frá Spáni, Frakklandi og Frakklandi skulu fara …
Íslendingar sem koma frá Spáni, Frakklandi og Frakklandi skulu fara í sóttkví í 14 daga. AFP

Íslendingar sem koma frá Spáni, þar með talið Kanaríeyjum, og Frakklandi skulu fara í sóttkví í 14 daga frá og með deginum í dag, 14. mars 2020. Íslendingar sem koma frá Þýskalandi skulu fara í sóttkví í 14 daga frá og með 12. mars 2020.

Sóttvarnalæknir tók ákvörðun þess efnis síðdegis og hefur hækkað áhættumat fyrir Spán, Þýskaland og Frakkland í ljósi útbreiðslu kórónuveirunnar í þeim löndum. Önnur slík svæði eru: Kína, Íran, Suður-Kórea, Ítalía og skíðasvæði í Ölpunum.

Ástæða hækkunar á áhættumati er mikil fjölgun sýktra og alvarlega veikra í þessum löndum. Spánn (þar á meðal Kanaríeyjar), Þýskaland og Frakkland teljast því nú til hááhættusvæða, að því er segir í tilkynningu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Líkt og greint var frá fyrr í dag hafa stjórnvöld ráðið Íslendingum frá ferðalögum og Íslendingum á ferðalagi erlendis ráðlagt að íhuga hvort ástæða sé til að flýta heimför.

Ekki er víst hvaða aðgang og réttindi Íslendingar munu hafa að heilbrigðisþjónustu auk þess sem heilbrigðiskerfi í mörgum ríkjum anna ekki álagi, hvort sem um er að ræða ferðamenn eða þá sem dvelja langdvölum erlendis.

Mikið álag er á borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins vegna lokanna ýmissa landa sökum kórónuveirunnar. Hefur vaktin hjá borgaraþjónustunni verið margfölduð en ef fólk er í vanda má það hafa samband við netfangið hjalp@utn.is, í síma 540-0112 eða á Facebook-síðu ráðuneytisins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert