Starfsmaður Grunnskólans í Hveragerði smitaður

Starfsmaður við Grunnskólann í Hveragerði hefur greinst með kórónuveiruna.
Starfsmaður við Grunnskólann í Hveragerði hefur greinst með kórónuveiruna.

Starfsmaður við Grunnskólann í Hveragerði er meðal þeirra sem greinst hafa með kórónuveiruna. Tæplega 300 nemendur og starfsfólk skólans eru í sóttkví. 

Rakningarteymi á vegum almannavarna rakti ferðir hins smitaða og hafði samband við Sævar Þór Helgason, skólastjóra Grunnskólans í Hveragerði, í kvöld. Í kjölfarið var foreldrum og forráðamönnum sendur upplýsingapóstur. 

Í póstinum er minnt á mikilvægi þess að nálgast allar mögulegar upplýsingar og að foreldrar færi börnum sínum fréttirnar í rólegheitum og með yfirvegun. Mikilvægt sé að muna að fólk í sóttkví er ekki veikt heldur í fyrirbyggjandi aðgerðum. 

Fyrirkomulag náms og skólastarfs næstu daga verður kynnt nánar síðar, að því er fram kemur í póstinum. Samkomubann tekur gildi á miðnætti á morgun en það nær ekki til grunnskóla, sem geta starfað líkt og aðstæður leyfa hverju sinni. 

Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá almannavörnum hafa átta tilfelli kórónuveirunnar greinst á Suðurlandi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert