„Ekki búin að átta okkur á því hvað þetta þýðir“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum ekki búin að átta okkur á því hvað þetta þýðir og hvað Ísland gerir. Þetta er það sem maður hefur séð að undanförnu, að ferðabönn eru sett á í fleiri löndum,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Iceland Group, spurður um fyrirhugað ferðabann Evrópusambandsins og Schengen-ríkjanna og mögulega aðkomu íslenska ríkisins að því. 

Fyrr í dag lagði Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, til að sam­bandið lokaði landa­mær­um sín­um fyr­ir ónauðsyn­leg­um ferðalög­um og farþegaflutningum milli landa. Í kvöld var fundur í utanríkisráðuneytinu og á þeim fundi sitja meðal annars Áslaug­ Arna Sig­ur­björns­dótt­ir dóms­málaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðar­son­ ut­an­rík­is­ráðherra og Michael Mann, sendi­herra Evr­ópu­sam­bands­ins á Íslandi. Málið verður tekið fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar í fyrramálið.  

Bogi segir að þar sem fólk ferðast minna þýðir það að leiðarkerfið er skorið meira niður. Fleiri lönd hafa boðað lokun sem hefur áhrif á flugfélög um allan heim. Í dag rauf Icelandair um 60% af leiðarkerfinu sínu og útlit fyrir að það haldi áfram að minnka.   

„Það veltur alfarið á því hvernig eftirspurnin er og hvort einhverjir séu að ferðast og bóka flug,“ segir hann spurður hvernig sviðsmyndin yrði ef boðið yrði upp á flug innan Shengen-svæðisins.

Bogi segir fyrirtækið vera í góðu sambandi við íslensk stjórnvöld um áhrif þróun mála á heimsvísu vegna kórónuveirunnar. Hann reiknar ekki með að vera í sambandi við stjórnvöld í kvöld en segist ekki vita hvað morgundagurinn hefur í för með sér. 

Fyrr í dag greindi Bogi Nils frá því í samtali við mbl.is að staðan væri þröng hjá félaginu og hún kallaði jafnframt eftir sársaukafullum aðgerðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert