Hafa hingað til talið bann hafa litla þýðingu

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum að reyna að fá einhverjar upplýsingar um þessa stóru ákvörðun sem tekin hefur verið hjá framkvæmdastjórninni. Þetta eru mikil tíðindi og bar mjög brátt að,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, en hún fundaði í kvöld með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, um mögulegt bann við ferðum til Schengen-svæðisins.

Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, lagði bannið til í ávarpi fyrr í dag með það fyrir augum að reyna að hefta frekari útbreiðslu kórónuveirunnar. Verði íslensk stjórnvöld við tilmælum um slíkt bann yrðu komur ferðamanna utan Schengen bannaðar í 30 daga.

Áslaug Arna segir nú verið að reyna að meta stöðuna og málið verði rætt á ríkisstjórnarfundi á morgun. „Við fengum sendiherrann á fund til að reyna að fá nánari upplýsingar en hann hafði ekki miklu að bæta við þær upplýsingar sem við höfum fengið nú þegar.“

Þær upplýsingar sem íslensk stjórnvöld hafa um málið eru í raun mjög litlar, að sögn Áslaugar. Niðurstöður framkvæmdastjórnarinnar hafi borist seinni partinn í dag þar sem biðlað hafi verið til Schengen-ríkja að taka þátt í ákvörðuninni.

„Við höfum auðvitað hingað til talið að svona bann hafi takmarkaða þýðingu og sé ekki líklegt til árangurs, eins og okkar sérfræðingar hafa margoft sagt og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin líka. En við þurfum að skoða þetta og munum ræða þetta í ríkisstjórn á morgun.“

Hún getur ekki sagt til um það á þessari stundu hvort íslensk stjórnvöld verði við tilmælunum. „Við erum að skoða hvaða tíma við höfum til að meta hvaða áhrif þetta hefur á Ísland. Það er ljóst að þetta mun hafa mikil áhrif og þess vegna þarf að taka svona ákvörðun á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga hverju sinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Kórónuveiran

29. maí 2020 kl. 13:30
1
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir