Opna fyrr fyrir þá viðkvæmustu

Hamstrað í Bónus í Skeifunni.
Hamstrað í Bónus í Skeifunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil ásókn hefur verið í matvörubúðir landsins í kjölfar þess að tilkynnt var um samkomubannið sem tók gildi í dag.

Í ljósi banns við samkomum þar sem 100 manns eða fleiri koma saman munu dyraverðir telja gesti sem fara í stærstu verslunarrými Bónus, þar sem gestafjöldi gæti náð takmörkum. Fjórar til fimm verslanir keðjunnar gætu fallið þar undir. Þá eru áform um að Bónusverslanir í Kauptúni, Korputorgi og Holtagörðum verði opnaðar klukkustund fyrir auglýstan opnunartíma, til þess að taka á móti hópum sem viðkvæmastir eru fyrir COVID-19. Sama gildir um verslanir Samkaupa. 

„Þetta úrræði er ekki hugsað fyrir hvern sem er heldur þá sem virkilega þurfa á því að halda,“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, í Morgunblaðinu í dag. Gæsla verði við verslunardyrnar.

Hann telur að hömstrun hafi náð hámarki um helgina og sé búin í bili, en enginn skortur á matvörum sé í kortunum. Því sé engin ástæða til að hamstra, en auk þess sé stærstur hluti innkaupakörfunnar íslensk framleiðsla.

„Fólk er þó helst að kaupa þurrvörur með langt geymsluþol, frystivörur og klósettpappír. Það er enginn æsingur og þetta hefur gengið mjög vel fyrir sig,“ segir hann.

„Þótt það hafi verið brjálað að gera hafa viðskiptavinir sýnt ástandinu skilning. Einnig hefur verið gríðarlegt álag á starfsfólki, sem hefur staðið sig frábærlega.“ 

Samkaup hefur ákveðið að opna tólf verslanir Nettó og fimmtán verslanir Kjörbúðarinnar eingöngu fyrir þá sem eldri eru, með undirliggjandi sjúkdóma eða viðkvæmir. Verslanirnar, sem eru um land allt, verða opnar frá klukkan 9-10 alla virka daga fyrir þessa tilteknu hópa, frá og með þriðjudeginum 17. mars og á meðan samgöngubann er í gildi. Þetta er gert til að koma til móts við þá hópa sem eru í mestri hættu út af kórónuveirunni, segir í fréttatilkynningu.

Ítarlegar verklagsreglur verða viðhafðar í þessum verslunum. Eins og í öllum verslunum Samkaupa, sem eru um 60 talsins, verða allir snertifletir, þar á meðal hurðahúnar, hurðir á kælum og frystum, posar, áhöld við afgreiðslu, handkörfur og innkaupavagnar, sótthreinsaðir og í þessum verslunum verða allir starfsmenn með grímur og einnota hanska við afgreiðslu. Þá hefur þeim tilmælum verið beint til allra starfsmanna sem eru ekki við afgreiðslu að vera ekki í samneyti við viðkvæma einstaklinga.

Samkaup fara þess á leit við viðskiptavini sína að fylgja fyrirmælum sóttvarnalæknis og halda tveggja metra fjarlægð á milli sín. Þá mælast Samkaup til þess við þessa hópa að reyna eftir fremsta megni að nota snertilausar greiðslur og forðast að nota peninga. Þá hvetur verslanakeðjan viðskiptavini til að huga vel að hreinlæti, því fyrst og síðast sé handþvottur mikilvægasta sýkingavörnin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert