Setið í öðru hverju þingsæti og atkvæði greidd í hollum

Þingfundur hefst klukkan 13:30. Gerðar hafa verið sérstakar ráðstafanir í …
Þingfundur hefst klukkan 13:30. Gerðar hafa verið sérstakar ráðstafanir í þingsal vegna samkomubannsins sem tók gildi í gær og verða líklega aldrei fleiri en 20 þingmenn í salnum hverju sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingfundur verður með heldur óhefðbundnu sniði þegar hann hefst klukkan 13:30 í dag. Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana vegna samkomubanns sem er í gildi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. 

„Alþingi er friðheilagt en auðvitað gerum við ákveðna hluti til að stuðla að því að það sé hæfileg fjarlægð á milli fólks,“ segir Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is.

Sérstakar ráðstafanir verða gerðar í þingsalnum sem tryggja að alltaf sé að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð á milli þingmanna og setið verður í öðru hverju þingsæti. „Þannig að bara þeir sem taka þátt í umræðum hverju sinni verða í þingsal en aðrir fylgjast með, til dæmi inni á skrifstofum, forseti hefur hvatt til þess,“ segir Ragna. Líklega verða því mest um tuttugu þingmenn inni í þingsalnum í einu. 

Ragna Árnadóttir.
Ragna Árnadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atkvæði greidd í þremur hollum

Atkvæðagreiðslur eru á dagskrá þingfundar í dag og þegar kemur til þeirra verður þingmönnum hleypt inn í þremur hollum. 

Þegar mest er starfa um 130 manns í þinghúsinu daglega. „Við erum að skiptast á að vinna heima til að minnka smitáhættu,“ segir Ragna. Fjarfundir eru orðnir tíðari og segir Ragna þá ganga misvel. 

Þingfundum hefur verið fækkað og eru tveir á dagskrá þessa vikuna, í dag og á fimmtudag, í stað fjögurra líkt og upphafleg starfsáætlun gerði ráð fyrir. Ragna segir að ákvörðun um næstu viku verði tekin síðar í þessari viku. „Það er í höndum forseta, formanna þingflokks og þingmanna að ræða það.“

Þingfundur hefst sem fyrr segir klukkan 13:30 og eru óundirbúnar fyrirspurnir fyrsta mál á dagskrá. Til svara verða fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra,  heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og félags- og barnamálaráðherra. Einungis þeir sem taka þátt í umræðunum hafa heimild til að vera í þingsalnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert