Stefnir í 100 milljarða króna halla ríkissjóðs

Ríkisstjórnin hefur þegar kynnt aðgerðir til þess að sporna við …
Ríkisstjórnin hefur þegar kynnt aðgerðir til þess að sporna við tjóni fyrirtækja og almennings af ástandinu og gerir Bjarni ráð fyrir því að frekari aðgerðir verði kynntar í vikunni. mbl.is/​Hari

Gera má ráð fyrir því að halli ríkissjóðs muni nema 100 milljörðum króna á árinu vegna kórónuveirufaraldursins. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist sleginn.

Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun, þar sem Bjarni var gestur og ræddi meðal annars um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins. 

Í þættinum sagðist Bjarni hafa áhyggjur af ástandinu, enda hefði helsta áherslumál hans verið að skapa aukið efnahagslegt jafnvægi í landinu, sem hefði tekist vel til. „Það sem maður er sleginn yfir núna er að það er komin utanaðkomandi ógn, sem getur valdið svona miklu uppnámi. Við fyrstu yfirferð sýnist mér augljóst að við förum yfir 100 milljarða halla á þessu ári og vel rúmlega það. Auðvitað er maður sleginn yfir þeirri staðreynd, en það er það sem er rétt að gera og það sem maður er ánægður með er að að við erum í aðstæðu til að gera það og ráðum við að gera það.“

Betra að gera of mikið en lítið

Ríkisstjórnin hefur þegar kynnt aðgerðir til þess að sporna við tjóni fyrirtækja og almennings af ástandinu og gerir Bjarni ráð fyrir því að frekari aðgerðir verði kynntar í vikunni.

„Án aðgerða getum við orðið fyrir gríðarlegum skelli. Atvinnuleysi getur rokið upp í 8% og fjöldinn allur af fyrirtækjum færi í þrot. Við þurfum að stíga stór skref núna. Frá okkar bæjardyrum séð er það mesta tjónið sem getur orðið, að þetta raungerist. Við getum farið í stórar ráðstafanir og minnkað skaðann fyrir alla.“

Loks sagðist Bjarni hafa verið skýr um það frá upphafi að frekar ætti að gera meira en minna. „Tilkostnaðurinn af því að gera aðeins of mikið verður alltaf minni en tjónið af því að gera of lítið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka