Taka aðstæðunum af æðruleysi

Í Hagaskóla í Reykjavík hefur bekkjum verið skipt í tvennt
Í Hagaskóla í Reykjavík hefur bekkjum verið skipt í tvennt mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Foreldrar skilja þessar aðstæður mjög vel. Ég hef skynjað mikið þakklæti fyrir að skólanum verði haldið opnum,“ segir Ásta Bjarney Elíasdóttir, skólastjóri Breiðholtsskóla. Skólastarf hefst víðast hvar á ný í dag eftir að samkomubann gekk í gildi.

Skipulag skólastarfsins er þó annað og minna í sniðum en alla jafna enda þarf að tryggja að ekki séu fleiri en 20 nemendur í sömu kennslustofu og að nemendur blandist ekki á milli hópa, til að mynda í mötuneytum. Sótthreinsa þarf skólabyggingar dag hvern. Útfærslur eru mismunandi eftir skólum enda bekkir misstórir og taka þarf mið af húsakosti svo dæmi séu tekin.

„Þetta hefur krafist smá skipulags en það þarf bara að taka þessum aðstæðum af æðruleysi. Við erum mjög mikilvæg stofnun og það þarf að halda samfélaginu gangandi eins lengi og hægt er,“ segir Ásta Bjarney en í Breiðholtsskóla mæta nemendur í 1.-7. bekk annan hvern dag. Í 5.-7. bekk er skóladagurinn skertur. Nemendur á unglingastigi mæta aðeins tvo tíma í þessari viku en fá verkefni til að vinna heima.

Í Hagaskóla í Reykjavík hefur bekkjum verið skipt í tvennt og mæta nemendur annan hvern dag í skólann. Í Vesturbæjarskóla mæta nemendur sömuleiðis annan hvern dag og er kennt í um það bil tvær klukkustundir. Nemendur í skólum í Vestmannaeyjum munu vera fjórar kennslustundir á dag í skólanum, alls þrjá klukkutíma. Nemendur verða aðeins í sínum bekk og munu mæta á misjöfnum tíma í skólann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert