Þörf á frekari rannsóknum vegna andlátsins

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þörf sé á frekari rannsóknum til að fá úr því skorið hvort  tengsl séu á milli andláts erlends ferðamanns hér á landi og COVID-19, en sýni úr manninum leiddi í ljós að hann var með kórónuveiruna. Þórólfur segir aftur á móti að það sé fremur ólíklegt miðað við þau einkenni sem hafi verið greint frá. 

Þetta kom fram á daglegum blaðamannafundi almannavarna og landlæknis í dag. 

Þórólfur segir að um 220 einstaklingar hafi verið staðfestir með sýkingu og þar af séu 22 frá skimun Íslenskrar erfðagreiningar. Hlutfall jákvæðra sýna frá veirufræðideild Landspítalans frá sjúklingum sé um 10% en frá ÍE um 1%. Það sé vísbending um samfélagsleg smit. 

Þórólfur segir að veiran hafi greinst í fjórum landshlutum sem komi ekki á óvart en búist var við því að dreifingin færi víða. Um 2.100 einstaklingar eru í sóttkví þessa stundina. Fjórir einstaklingar hafa verið lagðir inn á Landspítalann, þar af tveir á gjörgæslu. Enginn í öndunarvél.

„Okkur bárust þær fréttir í morgun af Norðurlandi að einn erlendur ferðamaður hefði látist þar í gær nokkuð skyndilega með einkenni sem bar brátt að. Það var ákveðið að taka sýni frá þessum einstaklingi og það reyndist vera jákvætt fyrir COVID-19 og sömuleiðis eiginkona hans sem var á ferðalagi með honum. Þessi einstaklingur sem lést hafði ekki verið með nein einkenni um COVID-sýkinguna, þannig að frekari rannsókna er þörf á því hvort einhver tengsl eru á milli COVID og andlátsins. Það er svona fremur ólíklegt miðað við þau einkenni sem greint hefur verið frá,“ sagði Þórólfur.

Hann segir að eiginkona mannsins hafi verið sett í einangrun. 

Ánægjulegt að sjá hversu margir hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar

Þórólfur hrósaði almenningi, fyrirtækjum og stofnunum fyrir það hvernig þau hefðu útfært samkomubannið og takmarkanir á skólahaldi sem var sett á laggirnar í gær. „Ég er mjög hrifinn af því hvernig menn hafa tekið á þessu. Auðvitað skapar þetta mikil vandamál á mörgum stöðum og við höfum verið í samskiptum við fjölmarga aðila, en það er mjög ánægjulegt að sjá hversu margir vilja leggja lóð sín á vogarskálarnar til þess að reyna sem mest að takmarka útbreiðslu þessarar veiru.“

Tölfræði um COVID-19 á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert