„Við erum eyja“

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ræddi stuttlega við blaðamenn að loknum …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ræddi stuttlega við blaðamenn að loknum fundi ríkisstjórnar í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mjög erfitt að sjá nokkur haldbær rök fyrir því að fara þessa leið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um tilmæli framkvæmdastjórnar ESB um að loka ytri landamærum Schengen. Ekki sé hægt að sjá í skjali Evrópusambandsins um málið að ákvörðunin sé byggð á „bestu mögulegu heilbrigðisupplýsingum“ eins og ráðherrann orðaði það þegar hann ræddi við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í morgun.

Eins og áður hefur komið fram funduðu Guðlaugur Þór og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra með sendiherra ESB á Íslandi vegna málsins í gær og komu á framfæri mótmælum stjórnvalda. „Okkar hagsmunir liggja auðvitað í því að hafa opnar flugleiðir, við erum eyja og hingað kemst fólk einungis með vörur og annað annaðhvort með skipum og flugvélum og þá ekki bara til Evrópu þótt Evrópa sé afskaplega mikilvæg,“ sagði ráðherrann spurður um möguleg viðbrögð án þess að gefa meira upp.

Tilmælin hefðu lítil áhrif á stöðuna eins og hún er í dag en Guðlaugur Þór bendir á að hlutirnir breytist hratt þessa dagana og því hafi Norðurlöndin hafið samstarf sendiráða sinna þar sem þegnar landanna geta gengið inn í sendiráð hver annars og fengið aðstoð. Íbúar Norðurlandanna gætu líka komist til síns heima í gegnum landamæri landanna. Þetta verður tilkynnt nánar í dag og var niðurstaða símafundar með utanríkisráðherrum Norðurlandanna í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert