Vont veður á Vestfjörðum

Vont var í sjó á Breiðafirði í gærkvöldi og risu …
Vont var í sjó á Breiðafirði í gærkvöldi og risu öldurnar hátt. Ljósmynd/Landhelgisgæslan.

Veður var orðið mjög vont á Vestfjörðum í gærkvöldi og leit út fyrir að slæmar spár fyrir svæðið væru að ganga eftir. Þar var norðaustan stormur með talsverðri snjókomu og búist við miklum skafrenningi og lélegu skyggni.

„Það eru 20 til 25 metrar á heiðunum og eins í Æðey sem bendir til þess að Djúpið sé mjög slæmt. Það er minni vindur niðri í Súðavík og á Flateyri, en það er talsvert mikill vindur orðinn. Strandirnar eru líka ansi ljótar,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum þangað til klukkan 20 í kvöld kvöld. En þar er einnig óvissustig vegna snjóflóðahættu og voru íbúðarhús rýmd bæði á Flateyri og Patreksfirði í gær. Þá er gul viðvörun í gildi á Breiðafirði, Ströndum og Norðurlandi vestra. Þar er búist við snjókomu og skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Varðskipið Týr var á leið vestur á firði og á níunda tímanum í gærkvöldi var skipið statt á Breiðafirði þar sem var norðaustan stormur og 6 til 8 metra ölduhæð. Að sögn Thorben Lund, skipherra á Tý, mátti búast við því að töluvert bætti í vind og sjó eftir því sem vestar drægi í nótt.

„Þetta er ósköp svipað og við töldum í dag og hefur legið fyrir alla helgina. Maður óskar þess stundum að spárnar séu vitlausar en þær eru það ekki núna,“ segir Elín en spár gera ráð fyrir að veðrið standi yfir í allan dag og fram á kvöld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert