Ýmislegt á reiki um hlutastarfafrumvarp

Að sögn ráðherra gætu skilyrði til hlutabótagreiðslna orðið rýmri en …
Að sögn ráðherra gætu skilyrði til hlutabótagreiðslna orðið rýmri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu nú. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumvarp um greiðslur atvinnuleysisbóta til fólks hvers starfshlutfall lækkar tímabundið er nú til umræðu í þinginu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ríkissjóður greiði laun fólks þar sem starfshlutfall hefur lækkað um á bilinu 20-50%, en þó þannig að launa- og bótagreiðslur geti ekki numið hærri fjárhæð en 650.000 krónum á mánuði.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra mælir fyrir frumvarpinu. Tók hann fram að það gæti tekið breytingum í meðferð þingsins og skilyrði þess rýmkuð.

Þingmenn stjórnarandstöðu spurðu ráðherra út í réttindi hópa sem ekki eru í einu 100% starfi. Spurði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, út í rétt þeirra sem þegar ynnu hlutastörf og sæju fram á að starfshlutfall þeirra lækkaði, til dæmis úr 60% í 30%. Svaraði ráðherra að skilningur sinn væri sá að frumvarpið næði einnig til þess fólks. Þannig yrði miðað við hve mikil skerðingin væri sem hlutfall af fyrra starfi.  

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Pírötum, spurðu báðar út í réttindi fólks sem ynni nokkur hlutastörf. Nefndu þingkonurnar sem dæmi fólk sem vinnur hlutastarf í veitingageiranum og önnur störf í skemmtanaiðnaði, eða fólk sem ynni sem leiðsögumenn hjá mörgum ólíkum fyrirtækjum. „Þetta er allt saman fólk sem vinnur kannski 20% í einni vinnu, 40% í annarri og svo framvegis,“ sagði Þórhildur Sunna.

Að sögn Ásmundar Einars er unnið með þeim hætti að viðkomandi hafi sömu réttindi þótt vinnuveitendur séu tveir eða fleiri. Miðað sé við samanlagt vinnuframlag.

Þessu fagnaði Þórhildur Sunna en sagði ljóst að skýra þyrfti lagatextann nánar svo þessi útfærsla væri ljós þeim sem lesa lögin. „Ég skil ekki lagatextann þannig og ef það er hugmyndin þá þarf það að koma miklu skýrar fram í lagatexta en einnig í nefndaráliti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert