Andlát: Bjarni Helgason

Bjarni Helgason
Bjarni Helgason

Bjarni Helgason jarðvegsfræðingur lést 21. febrúar sl. 86 ára að aldri. Útför hans hefur farið fram í kyrrþey.

Bjarni fæddist 1. desember 1933, sonur hjónanna Helga Tómassonar, yfirlæknis á Kleppi, og Kristínar Bjarnadóttur.

Bjarni ólst upp á Kleppi, þar sem faðir hans var yfirlæknir. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953 og nam eftir það jarðvegsfræði við Háskólann í Aberdeen, lauk því námi 1955 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1959, en hann var aðstoðarkennari við skólann á árunum 1957-58. Hann lauk auk þess BA-prófi í landafræði frá Háskóla Íslands árið 1956.

Bjarni var sérfræðingur við Búnaðardeild Atvinnudeildar HÍ frá 1959 og hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins frá 1965 til loka starfsævi sinnar, en þar var hann deildarstjóri jarðvegsdeildar frá 1980.

Bjarni var í fjölmörgum nefndum, starfshópum og félagsstarfi. Hann var meðal annars formaður Félags sjálfstæðismanna í Háaleitishverfi og sat í stjórn Félags sjálfstæðismanna í Fossvogi. Hann var einn af forgöngumönnum Varins lands. Þá sat Bjarni m.a. í stjórn Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, var formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga og átti sæti í sérfræðinganefnd á vegum Evópuráðsins um jarðvegseyðingu, í stjórnskipaðri nefnd til að endurskoða lög um sölu og dreifingu mjólkur og stjórnskipaðri nefnd um neytendamálefni. Þá sat Bjarni í stjórn RALA, Áburðarverksmiðju ríkisins, skólanefnd Skóla Ísaks Jónssonar og stjórn Neytendasamtakanna. Hann var formaður Veiðifélags Þingvallavatns.

Út hafa komið fjölmargar fræðigreinar eftir Bjarna bæði hér á landi og erlendis. Hann var einnig virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins alla tíð og vann ötullega að uppbyggingu skógræktar í Hagavík í Grafningi.

Eiginkona Bjarna var Guðrún Kristín Magnúsdóttir. Þau skildu. Börn þeirra eru Magnús, Helgi, Kristín og Hjalti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »