Fella niður leigu í tvo mánuði vegna veirunnar

Flestir urðu orðlausir þegar Eygló færði þeim fréttirnar.
Flestir urðu orðlausir þegar Eygló færði þeim fréttirnar. mbl.is/Hari

Það var ansi gleðilegt símtalið sem leigjendur hjá fasteigna- og leigufélaginu Þórsgarði hf. fengu í gær en hinum megin á línunni var Eygló Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri fasteignasviðs félagsins. Hún tilkynnti leigjendum að ákveðið hefði verið að fella niður leigu fyrir apríl- og maímánuð vegna kórónuveirunnar og þeirra erfiðu aðstæðna sem faraldurinn hefur skapað fyrir marga.

„Maður hefur heyrt að það sé erfitt hjá sumum leigjendum okkar en það hefur enginn farið fram á neina hjálp eða neitt svoleiðis,“ segir Eygló í samtali við mbl.is. „Okkur finnst við vera að taka samfélagslega ábyrgð með þessu og viljum hugsa vel um okkar leigjendur. Við erum með frábært fólk og margir hafa verið hjá okkur lengi.“

Viðbrögð fólks voru eðlilega mjög jákvæð og flestir orðlausir. „Nánast enginn átti til orð og allir voru þvílíkt þakklátir. Svo hef ég verið að fá kveðjur frá fólki í dag sem er að þakka fyrir og það trúir þessu ekki enn þá,“ segir Eygló en Þórsgarður er með tugi leigjenda.

„Ég vil ég nota tækifærið til að hvetja önnur fasteigna- og leigufélög til að leggja sitt af mörkum og gera það sem þau geta til að hjálpa sínu fólki,“ segir Eygló að lokum.

Ætlar að gefa hluta til góðgerðarmála

Inga María Hjartardóttir er ein þeirra sem leigja hjá Þórsgarði og nýtur því góðs af niðurfellingu leigunnar. Hún er í hlutastarfi í ferðabransanum og meðleigjandi hennar vinnur á bar í miðbænum. Þær sjá báðar fram á mikinn tekjumissi á næstu vikum og mánuðum vegna ástandsins og þetta voru því kærkomnar fréttir fyrir þær.

„Að þurfa ekki að hafa áhyggjur af leigupeningum næstu tvo mánuði er gríðarlegur léttir. Það er ótrúlegt hvað svona hræðilegar aðstæður geta dregið fram það besta hjá fólki,“ segir Inga María í samtali við mbl.is. Hún, líkt og Eygló, hvetur önnur leigufyrirtæki til að skoða hvort þau geti aðstoðað leigjendur sína á einhvern hátt.

Sjálf ætlar hún að gefa hluta af þeim peningum sem hefðu farið í leigu til góðgerðarmála. „Ég vona að þetta hrindi af stað enn fleiri góðverkum.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert