Fimm ára fangelsi fyrir gróft ofbeldi og nauðgun

mbl.is/Þór

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa beitt sambýliskonu sína grófu ofbeldi og nauðgað henni í íbúðargámi þar sem þau höfðu dvalarstað. Manninum var jafnframt gert að greiða konunni þrjár milljónir króna í miskabætur.

Samkvæmt ákæru veittist maðurinn ítrekað að konunni með ofbeldi, veitti henni ítrekuð hnefahögg í andlit, höfuð og líkama, risti skurð á læri hennar, ýtti henni og tók hana kverkataki þar til hún gat ekki andað. Þá reif hann í hár hennar og klippti hluta þess, reyndi að bíta hana, ógnaði með sprautunálum og nauðgaði henni. Hlaut konan af ofbeldinu margvíslega áverka.

Maðurinn neitaði alfarið sök fyrir dómi og sagðist hafa verið allsgáður á umræddum tíma. það gat hins vegar ekki staðist þar sem í blóði hans fundust kannabis og fleiri lyf. Framburður hans fyrir dómi var mjög óskýr og gloppóttur. Framburður konunnar var hins vegar að mestu stöðugur en bar þess merki að hún hefði verið undir áhrifum vímuefna. Sjálf sagðist hún hafa verið í mikilli neyslu á þessum tíma. Tillit var tekið til þess við mat á framburði hennar. Þá segir í dómnum að líta beri til þess að um mjög alvarleg brot hafi verið að ræða í aðstæðum þar sem konan átti að vera örugg.

Varð konan fyrir töluverðu líkamstjóni af völdum mannsins og allar líkur eru á því að hún hafi einnig orðið fyrir talsverðu andlegu tjóni sem ekki sér fyrir endann á og varð það til refsiþyngingar ásamt löngum sakaferli mannsins. Fimm ára fangelsisdómur þótti því hæfileg refsing, ásamt miskabótum. Þá var manninum einnig gert að greiða allan sakarkostnað.

mbl.is