Óumflýjanlegt að einhverjir séu óttaslegnir

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir óumflýjanlegt eftir gærdaginn að …
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir óumflýjanlegt eftir gærdaginn að einhverjir séu óttaslegnir en hann segir mikilvægt að sýna yfirvegun. Ástralskur ferðamaður um fertugt lét lífið á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík í fyrradag og reyndist hann smitaður af kórónuveirunni. Dánarorsök liggur ekki fyrir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Auðvitað bregður manni við svona fregnir, alveg óháð hvort faraldur geisi eða ekki, þegar einhver lætur lífið með svona skyndilegum hætti í samfélaginu,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings. 

Ástralskur ferðamaður um fertugt lét lífið á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík í fyrradag. Hann reyndist smitaður af kórónuveirunni en verið er að rannsaka dánarorsök hans. 

„Mér finnst allir vera að sýna yfirvegun, en það þarf að fá nákvæmlega úr því skorið hvað gerðist nákvæmlega,“ segir Kristján. 

Sveitarstjórn Norðurþings mun halda áfram að vinna eftir gildandi viðbragðsáætlun að sögn Kristjáns á meðan beðið er frekari fregna frá sóttvarnalækni og almannavörnum. Eitt smit hafði áður greinst á Norðurlandi eystra, en það var á Akureyri.  

„Það bjuggust allir við því að fyrsti einstaklingurinn yrði greindur hér á svæðinu en þetta er einangrað tilvik enn sem komið er og mér finnst fólk almennt vera að sýna yfirvegun og skilning á aðstæðum,“ segir Kristján. 

Tilgátur á samfélagsmiðlum ekki til að róa fólk

Hann segir það óumflýjanlegt eftir gærdaginn að einhverjir séu óttaslegnir í bænum en hann segir mikilvægt að sýna yfirvegun. „Samfélagsmiðlarnir og þær tilgátur sem oft koma fram þar  eru ekki til að róa fólk. En ég hef fulla trú á almannavörnum, Þórólfi, Ölmu og Víði og því góða teymi, þau eru með ákveðið „gameplan“ í gangi og við fylgjum því.

Það er gríðarlega mikilvægt að við sinnum okkar hlutverki sem hlekkur í almannavörnum í landinu, hvert og eitt okkar, og þá komumst við í gegnum þetta,“ bætir hann við. 

Alls eru 22 ein­stak­ling­ar í sótt­kví eft­ir að hafa sinnt ferðamanninum en í þeim hópi eru heilbrigðisstarfsfólk, lög­reglu- og sjúkra­flutn­inga­menn. Heil­brigðis­starfs­fólk frá Ak­ur­eyri mun mann­a vakt­ir á heil­brigðis­stofn­uninni og fyrir það er Kristján þakklátur.

Samkomubannið sem tók gildi á miðnætti á sunnudag hefur fyrst og fremst áhrif á skólahald í bænum. Til að mynda mætti aðeins þriðjungur leikskólabarna í skólann í gær. „Við erum að taka það mjög alvarlega að börn séu ekki að koma í skólann með flensueinkenni og auðvitað er margt annað í gangi, en það eru allir sem skilja það að þetta eru rosalega skrítnir tíma og við þurfum hvert og eitt að sýna umburðarlyndi í þessum aðstæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert