Sjúkrabílarnir sótthreinsaðir

Síðustu daga hafa COVID-19-tengdir sjúkraflutningar verið um sex til sjö á dag og fer fjölgandi. Eftir hverja ferð er mikil áhersla lögð á sótthreinsun búnaðar sem var notaður í ferðinni og nokkrum sinnum hefur sjúkraflutningafólk verið sett í sóttkví hafi einhver möguleiki verið á smiti. 

Brynjar Þór Friðriksson, deildarstjóri á aðgerðasviði hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir að heilbrigðiskerfið hér búi að því að nokkur aðdragandi hafi verið að því að kórónuveiran sem veldur Covid-19-sjúkdómnum kæmi hingað til lands. Undirbúningur hafi staðið yfir um tíma. Ljóst að þær aðgerðir sem notaðar eru í sjúkraflutningum hérlendis virki til að halda aftur af útbreiðslunni.

Tveir sjúkrabílar eru notaðir til að bregðast við sjúkraflutningum þar sem vitað er að um Covid-19-tengd tilfelli er að ræða. Hins vegar eru tveir venjulegir bílar til viðbótar notaðir til að flytja fólk sem getur gengið sjálft og hafa flest tilfellin verið þannig. Þá hafa sjúkrabílar verið notaðir til að bregðast við slysum eða veikindum þar sem grunur um smit vegna kórónuveirunnar vaknar seinna meir. Það hefur þó ekki orðið til að dreifa veirunni hingað til.

Í myndskeiðinu er rætt við Brynjar og kíkt á sótthreinsunarsvæði sjúkrabíla sem er í Skógarhlíðinni en þaðan er aðgerðum til að bregðast við faraldri kórónuveirunnar stýrt.

mbl.is