Sungu fyrir fólkið á svölunum

Það var falleg stund í garðinum á Hrafnistu-Ísafold í Garðabæ í dag þegar fjöldi söngvara söng þar nokkrar íslenskar dægurperlur fyrir heimilisfólkið sem kom sér vel fyrir á svölunum með teppi og kakó þar sem það hlýddi á tónlistina og fagnaði svo vel í lokin. 

Á meðal laga voru slagarar á borð við „Manstu ekki eftir mér“ sem Stuðmenn gerðu vinsælt, „Heyr mína bæn“ og „Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig“ og lokalagið var að sjálfsögðu „Ég er kominn heim“.

mbl.is var að sjálfsögðu á staðnum og í myndskeiðinu má sjá brot úr lokalaginu.

Fyrr í dag var fjallað um framtakið á mbl.is. Það var Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir sem stóð fyrir framtakinu en faðir hennar er einn heimilismanna og þar sem samkomubann er í gildi getur hún ekki heimsótt hann.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman