Allt uppselt hjá Eldum rétt í gær

Matarpakkana frá Eldum rétt er bæði hægt að sækja og …
Matarpakkana frá Eldum rétt er bæði hægt að sækja og fá heimsenda. mbl.is/Hari

Eldum rétt, sem selur matarpakka sem innihalda hráefni og uppskriftir að ákveðnum réttum, er eitt þeirra fyrirtækja sem tæplega hafa annað eftirspurn vegna skyndilegrar aukningar í sölu og heimsendingum síðustu vikur, en í gær voru matarpakkar fyrir næstu viku uppseldir hjá þeim. 

„Það voru margir ósáttir við okkur að hafa kippt úr sambandi, en við verðum að reyna að viðhalda toppgæðum eins og kostur er. Þetta hefur aukist mjög hratt á undanförnum vikum og við ákváðum að við myndum bara ráða við ákveðið mikið þessa viku og erum að vinna í að fá fleira starfsfólk,“ segir Kristófer Júlíus Leifsson, framkvæmdastjóri Eldum rétt, í samtali við mbl.is.

Netverslun hefur aukist mjög síðustu vikurnar vegna útbreiðslu kórónuveirunnar,sérstaklega hvað matvöru varðar, enda margir í sóttkví og enn fleiri sem kjósa að sleppa því að fara í matvöruverslanir ef þeir geta.

Kristófer telur að heimsendingum hafi fjölgað um allt að 40 til 50 prósent hjá Eldum rétt á síðustu þremur vikum. „Það breytir myndinni svolítið mikið fyrir okkur en okkar helsta markmið er að anna eftirspurninni. Við munum reyna að framleiða meira í næstu viku og svo koll af kolli. Maður veit ekkert almennilega hvar þetta endar.“

Kristófer Júlíus Leifsson, framkvæmdastjóri Eldum rétt, segir nú forgangsatriði að …
Kristófer Júlíus Leifsson, framkvæmdastjóri Eldum rétt, segir nú forgangsatriði að reyna að anna eftirspurn. Ljósmynd/Eldum rétt

En það er ekki nóg að ráða bara fleira starfsfólk heldur þarf að gera ýmsar ráðstafanir til að uppfylla tilmæli um sóttvarnir og koma í veg fyrir að loka þurfi fyrirtækinu ef smit kemur upp. Það flækir líka málin. „Það er ákveðin áskorun að skipta öllum upp í tvo eða fleiri hópa. Skrifstofan er í fjórum hlutum og vinnslan í tveimur og við erum að reyna að búa til þriðja hlutann í vinnslunni.“

Kristófer segir Eldum rétt-pakkana klárlega góða lausn í matarflórunni sem í boði er. „Ef maður er alltaf að borða þessa tilbúnu rétti verður maður kannski fljótt leiður á þeim. Við erum með skemmtilegt úrval. Á mínu eigin heimili er þetta fastur liður og við erum mjög sátt. Þetta er þægilegt tól til að halda rútínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert