Binda vonir við að flogið verði á ný í sumar

Vél Air Iceland Connect var hlaðin matvælum og sápu á …
Vél Air Iceland Connect var hlaðin matvælum og sápu á leið til Kulusuk í gær. Grænlandsflugið hefur verið lagt af næstu vikurnar.

„Við erum með ágæta bókunarstöðu fyrir Grænland í sumar og væntum þess að hægt verði að koma öllu í gang á ný fyrir þann tíma,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.

Í gær var kynnt sú ákvörðun grænlensku heimastjórnarinnar að allt flug í landinu legðist af frá og með miðnætti á föstudag. Er þetta gert til að reyna að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Áður hafði verið tilkynnt að landamærum landsins væri lokað öllum öðrum en dönskum ríkisborgurum. Ljóst er að flug Air Iceland Connect til og frá Grænlandi er komið í biðstöðu.

„Þessi ákvörðun á föstudag, að landamærum Grænlands væri lokað fyrir alla nema danska ríkisborgara, hafði strax áhrif. Hún þýddi einfaldlega að ekki væru forsendur fyrir okkar flugi þangað. Því vorum við búin að taka flug úr sölu og tilkynna farþegum sem áttu bókað síðar að þeir yrðu að nýta flug í þessari viku,“ segir Árni. „Okkar farþegar þangað eru að uppistöðu erlendir ferðamenn, um það bil 85-90%,“ segir hann ennfremur.

Air Iceland Connect hefur flogið til þriggja áfangastaða á Grænlandi, til Nuuk, Kulusuk og Ilulissat. Síðasta flugið var til Kulusuk í gær. Aðeins einn farþegi flaug með til Grænlands en vélin var full af farþegum á bakaleiðinni. Hins vegar voru tæplega þrjú tonn af matvælum og handsápu flutt til Kulusuk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert