„Við náðum talsverðum árangri“

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður Blaðamannafélags Íslands er ánægður með þann árangur sem náðist í kjarasamningi sem skrifað var undir við Samtök atvinnulífsins í dag. 

„Það var kominn tími á það,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is. Samningar félagsins höfðu verið lausir frá 1. janúar 2019 og var kjaradeilunni vísað til ríkissáttasemjara síðastliðið vor. Viðræður gengu hægt og fóru blaðamenn í þrjú verkföll í nóvember.

Fundahöld hófust svo að nýju síðastliðinn mánudag og hafa aðilar nú loks náð saman.

Hvetur blaðamenn til að samþykkja samninginn

„Við náðum fram ákveðnum hlutum sem við vorum búin að berjast lengi við og svo liggur það í hlutarins eðli að við þurftum að fara að klára þetta, ástandið í samfélaginu er bara þannig og aðrir búnir að semja,“ segir Hjálmar.

„Við náðum talsverðum árangri í þessum samningaviðræðum þó að við hefðum viljað ná lengra. En samningar ganga út á að komast að niðurstöðu og ég er sannfærður um það að það var ekki hægt að komast lengra en við komumst og ég hvet blaðamenn til þess að samþykkja samningana.“

Tekið skal fram að flest­ir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert