Notkun á Heilsuveru þrefaldast

Forritari að störfum hjá Origo.
Forritari að störfum hjá Origo.

Hátt í 30 þúsund manns nota mínar síður á Heilsuveru (heilsuvera.is) á degi hverjum, en notkun á vefnum hefur þrefaldast á skömmum tíma í kjölfar COVID-19-faraldursins. Um 100 þúsund einstaklingar nýttu sér vefinn á 28 daga tímabili, samkvæmt upplýsingum frá upplýsingatæknifyrirtækinu Origo.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Heilsuvera.is færir heilsugæslu landsins heim til fólks, en þar getur það bókað tíma, fengið ráðleggingar í gegnum netspjall eða endurnýjað lyfseðla. Þá er þar mikið magn af greinum um heilsusamleg málefni.

Guðjón Vilhjálmsson, forstöðumaður heilbrigðislausna Origo, segir að notkun hafi vaxið afar hratt og því hafi verið ráðist í ákveðnar breytingar á hýsingarumhverfi vefjarins til að tryggja góðan svartíma. Aukið álag var farið að hafa áhrif á svartímann. Í kjölfar breytinga er svartíminn orðinn mjög góður, eða að meðaltali 0,3 sekúndur, samkvæmt tilkynningu frá Origo.

„Okkur sýnist að þessar breytingar hafi skilað sér í mun betri svartíma og að Heilsuvera ráði vel við þetta aukna álag. Eitt af því sem olli álagi var stóraukin umferð á vefinn vegna einstaklinga sem voru að skoða niðurstöður úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar og má búast við að það verði eitthvað áfram,“ segir Guðjón í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert