Ráðherra loki spilakössum vegna kórónuveiru

Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa hvatt dómsmálaráðherra til að loka öllum spilakössum hérlendis vegna kórónuveirunnar en leyfi til reksturs þeirra heyrir undir dómsmálaráðuneytið.

Fram kemur í bréfi til ráðherra að öll lönd sem eru að berjast við veiruna hafi þegar lokað öllum sínum spilavítum.

„Ekki virðast leyfishafar spilakassa hafa sómakennd til að bregðast við af ábyrgð og því þurfa yfirvöld að taka ábyrgð og loka öllum spilakössum tímabundið til að stemma stigu við smithættu!“ segir í harðorðu bréfinu.

Alma Hafsteinsdóttir
Alma Hafsteinsdóttir

„Ef ekki gengur að fá leyfishafa til að sýna ábyrgð og loka spilakössum strax meðan þetta hættuástand gengur yfir leggja Samtök áhugafólks um spilafíkn til að dómsmálaráðherra afturkalli leyfin tafarlaust!“

Félagið hefur einnig sent ósk um hjálp til Alþjóða Rauða krossins.

Samtökin, ásamt Neytendasamtökunum, sendu í síðustu viku áskorun á Háskóla Íslands, Happdrætti Háskóla Íslands og eigendur Íslandsspila sf., Rauða krossinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg og SÁA, um að loka öllum spilakössum tímabundið vegna mögulegrar smithættu vegna kórónuveirunnar. Undir áskorunina skrifuðu einnig Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Að sögn Ölmu Hafsteinsdóttur, formanns Samtaka áhugafólks um spilafíkn, hafa engin svör borist nema frá Happdrætti Háskóla Íslands þar sem fram kemur að spilakössum verði ekki lokað nema borist hafi tilmæli, til dæmis frá embættum sóttvarnalæknis eða landlæknis, þess efnis.

Þar segir einnig að varúðarráðstafanir vegna Covid-19 hafi verið auknar til muna alls staðar í þjóðfélaginu og þrif aukin, sem og hreinlæti. Sérstökum tilmælum hafi verið beint til rekstraraðila um hreinlæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert