„Þurfum að vera jákvæð og peppa hvort annað“

Hópurinn varð að fresta göngu yfir Vatnajökul vegna ástandsins.
Hópurinn varð að fresta göngu yfir Vatnajökul vegna ástandsins. Ljósmynd/Aðsend

„Það er frábært að heyra frá Íslendingum hvernig þeir eru að haga sér í hversdeginum í óvenjulegum aðstæðum eins og samkomubanni. Meginskilaboð okkar í þessu lífskraftsátaki er að halda áfram þrátt fyrir áföll eða óvissu, taka eitt skref í einu með jákvæðu hugarfari og vera utandyra,“ segir Soffía Sigurgeirsdóttir, ein stofnenda síðunnar Minn lífskraftur á Facebook.

Hópurinn er ætlaður öllum sem vilja fara út úr húsi og finna sinn lífskraft, hvort sem hann felst í göngutúr, fjallgöngum, skíðaiðkun eða öðru sem gefur kraft til að takast á við lífið og áskoranir þess. Og jafnframt hvetja aðra til dáða. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er einn þeirra sem deilt hefur sínum lífskrafti á síðunni og hvatt fleiri til dáða.

Urðu að fresta göngu yfir Vatnajökul út af ástandinu

Hópurinn er sprottinn upp úr Lífskraftsátakinu en upphafskona þess er Sirrý Ágústsdóttir sem hyggst ganga yfir Vatnajökul, ásamt útivistarvinkonunum í Snjódrífunum, til að safna áheitum fyrir styrktarfélögin Líf og Kraft. Til stóð að gengið yrði yfir jökulinn í apríl en ákveðið var að fresta göngunni fram í júní vegna aðstæðna í samfélaginu. En safna á áheitum fyrir félögin Líf og Kraft. Soffía er ein af Snjódrífunum og Karen Kjartansdóttir líka, en hún segir það hafa verið eina rétta í stöðunni að fresta göngunni. Þeim fannst því tilvalið að nýta alla orkuna í að gera eitthvað skemmtilegt og hvetjandi á meðan.

Soffía og Karen finna sinn lífskraft sérstaklega á fjöllum.
Soffía og Karen finna sinn lífskraft sérstaklega á fjöllum. Ljósmynd/Aðsend

„Okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt, hressa fólk við og fá fólk með okkur. Við vildum ekki vera að safna peningum því efnahagslegur ótti er svo djúpt í fólki. Við fórum því að skoða hvað við gætum gert,“ segir Karen, en Snjódrífurnar eiga það allar sameiginlegt að finna lífskraftinn á fjöllum eða í útivist og hreyfingu.

Hleypur 3 kílómetra í 50 metra innkeyrslu 

Karen segir hugmyndina að Mínum lífskrafti nánast hafa fæðst sjálfkrafa. Það var einfaldlega borðleggjandi að hvetja fólk til útivistar og andlegrar næringar og deila því með öðrum. 2.000 manns höfðu skráð sig í hópinn án þess að hann væri nokkuð auglýstur og segir Karen það sýna þörfina á jákvæðum hugmyndum. En hópurinn stækkar mjög ört og fjölmargir hafa nú þegar deilt sögum og myndum af því hvernig þeir finna sinn lífskraft. „Uppáhaldssagan mín er frá konu sem býr á Spáni og er í útgöngubanni en er að hlaupa 3 kílómetra á dag í 50 metra innkeyrslunni sinni. Mér finnst þetta svo yndislegt.“ Það er því augljóslega hægt að nota hugmyndaflugið og laga sig að aðstæðum til að fá bæði góða hreyfingu og útivist þó það sé ekki nema í mýflugumynd. 

Hópurinn stefnir að því að ganga yfir Vatnajökul í byrjun …
Hópurinn stefnir að því að ganga yfir Vatnajökul í byrjun júní. Ljósmynd/Aðsend

„Hér á Íslandi, þar sem er ekki útgöngubann, getum við ennþá farið út í náttúruna og erum hvött til þess af almannavörnum. Bara til að halda fólki virku,“ segir Karen og bendir á að virkni og bjartsýni hafi ekki bara jákvæð áhrif á andlega heilsu heldur líka líkamlega heilsu. „Það er því svo mikilvægt að það sé hugað að þessum þáttum, hvað þá í svona ástandi; ótúrlega sérstöku og furðulegu ástandi sem við höfum aldrei séð áður.“

Soffía tekur undir með Karen og segir mjög mikilvægt að fara út að hreinsa hugann á hverjum degi, sérstaklega núna. „Við viljum hvetja Íslendinga að huga að ónæmisdekri. Þessi síða á að vera hvatning. Við þurfum á þessu að halda. Við þurfum þessi samskipti þó þau séu bara rafræn. Við þurfum að vera jákvæð og peppa hvort annað upp. Ég held að við munum læra ýmislegt í þessu samkomubanni og kunnum kannski meira að njóta þessara hversdagslegu hluta eins og að fara út að labba og hitta fólk.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert