Þúsundir Íslendinga sýna þakklæti í verki

Þúsundir Íslendinga ætla að sýna þakklæti í verki í kvöld.
Þúsundir Íslendinga ætla að sýna þakklæti í verki í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Klukkan sjö í kvöld ætla Íslendingar að fara að fordæmi til dæmis Ítala og Spánverja og fara út á svalir eða út í garð og klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki landsins sem stendur í ströngu um þessar mundir vegna kórónuveirufaraldurs.

Það er Kamilla Ósk Heimisdóttir sem á heiðurinn af því að stofna viðburðinn og hvetja Íslendinga til að sýna þakklæti í verki með þessum hætti. Hún ákvað að taka af skarið, enda þarf jú bara einhvern einn til að hrinda svona verkefni í framkvæmd. „Og af hverju ekki ég?“ segir hún í samtali við mbl.is. Viðbrögðin hafa verið miklu betri en hún bjóst við, en hún segir þetta vissulega hafa geta brugðið til beggja vona. Þúsundir hafa skráð sig á viðburðinn, en búast má því að töluvert fleiri taki þátt í honum. Íslendingar vilja greinilega sýna þakklæti á þessum erfiðu og skrýtnu tímum.

Kamilla er sjálf í sóttkví, líkt og rúmlega 4.000 Íslendingar, en ætlar út á svalir að klappa í kvöld. Hún segir alla í kringum sig ætla út að klappa, enda sé það skemmtilegra en að vera inni. „Hugmyndin er að fólk fari út svo það heyrist í því,“ segir Kamilla. Þeir sem komast ekki út geta að sjálfsögðu farið út í glugga og fólk á ferðinni getur stoppað bílinn sinn, skrúfað niður rúðuna og klappað.

Fólk er jafnframt hvatt til að taka upp myndbönd og deila á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #þakklætisklapp eða #thakklaetisklapp

Aðspurð hvort hún sjái þetta fyrir sér sem einstakan viðburð eða eitthvað sem verði gert oftar segir hún upphaflegu hugmyndina bara verið eitt skipti en það megi vel endurtaka klappið ef áhugi er fyrir því.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert