230 milljarða tal villandi

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Stjórnarandstaðan fékk kynningu á tillögum ríkisstjórnarinnar …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Stjórnarandstaðan fékk kynningu á tillögum ríkisstjórnarinnar í morgun. mbl.is/Sigurður Bogi

„Aðgerðirnar sem snúa að heimilunum eru fyrst og fremst frestanir. Sá vandi hverfur ekki heldur birtist þér seinna ef hlutirnir fara að ganga.“ Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, inntur eftir viðbrögðum við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar, sem kynnt var í hádeginu.

Hlutastarfaleiðin mikilvægasta aðgerðin

Logi segir mikilvægustu aðgerð stjórnvalda vera hlutastarfaleiðina svokölluðu, sem unnin var í samráði allra flokka á þingi. Með henni fær fólk, sem þarf að minnka starfshlutfall sitt í vinnu, atvinnuleysisbætur í samræmi við skert starfshlutfall til að bæta því upp tekjumissi. „Það er stærsta og mikilvægasta efnahagsaðgerðin vegna kórónuveirunnar sem komið hefur fram,“ segir Logi.

Að hans mati er tal um 230 milljarða aðgerðir ríkisstjórnarinnar villandi, en hann segir þingmenn hafa látið í veðri vaka að ríkisstjórnin myndi leggja þá upphæð til. „Hið rétta er að þarna er fjöldi hluta sem stjórnvöld leggja ekki til,“ segir Logi og nefnir sem dæmi heimild til úttektar séreignarsparnaðar, sem og lán frá bönkum. Þá virðist sem frestun á greiðslum opinberra gjalda sé þar einnig meðtalin.

Formenn ríkisstjórnarflokkanna kynntu tillögur stjórnvalda í Hörpu í hádeginu.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna kynntu tillögur stjórnvalda í Hörpu í hádeginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal aðgerða ríkisstjórnarinnar er útvíkkun átaksins Allir vinna. Með því verður boðið upp á fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhalds og þjónustu á heimilum og hjá félagasamtökum en hlutfallið er nú 60%. Þá verður greiddur sérstakur barnabótviðauki: 40.000 krónur á hvert barn fyrir foreldra með meðaltekjur undir 927.000 krónum, en 20.000 krónur á tekjur þar yfir.

Heimili, fyrirtæki og sveitarfélög þurfi frekari aðgerðir

Þótt Logi telji þær aðgerðir góðra gjalda verðar segir hann að fjárhæð barnabótaaukans mætti vera hærri. „Við hefðum viljað sjá töluverða aukningu í stuðningi til barnafjölskyldna til þess að koma í veg fyrir að börn líði skort í þessu ástandi sem nú er,“ segir Logi. Það hafi reynst vel eftir bankahrun.

Þá þurfi að grípa til aðgerða til að verja sveitarfélögin í landinu, sem Logi segir að standi mörg hver höllum fæti fyrir og verði nú fyrir miklum kostnaði vegna brokkgengs reksturs grunnskóla, leikskóla og hjúkrunarheimila. „Á sama tíma er pressa á sveitarfélög að lækka sínar tekjur og blása til aukinna framkvæmda. Við þekkjum öll að mjög mörg sveitarfélög hafa litla burði til að taka þetta á sig.“

Aðspurður segist Logi telja mögulegt að tillögur ríkisstjórnarinnar taki breytingum í þinginu. Það hafi sýnt sig er frumvarp um hlutastarfaleiðina var til umræðu í liðinni viku. „Hún kom inn í þingið allt of máttlaus og það var fyrst og fremst vegna góðrar vinnu í velferðarnefnd sem það frumvarp batnaði,“ segir Logi og vísar þar til breytinga sem gerðar voru á frumvarpinu, svo sem um rétt láglaunafólks til fullra bóta án skerðingar og rétt námsmanna í hlutastarfi og fólks sem vinnur hjá fleiri en einum vinnuveitanda til bóta.

Betra að hafa stjórnarandstöðu með frá upphafi

Þingflokkar stjórnarandstöðu fengu kynningu á tillögum ríkisstjórnarinnar klukkan 11 í morgun, tveimur tímum áður en þær voru kynntar almenningi. Spurður út í samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu á þessum erfiðu tímum segist Logi telja að betra hefði verið að hafa stjórnarandstöðu með í ráðum frá upphafi. „Auðvitað víkja menn til hliðar ýtrustu flokkspólitík. Við erum í verkefni sem er af stærðargráðu sem við höfum aldrei séð áður og við verðum öll að leggjast á árar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert