Fyrirtæki munu fá greiðsluskjól

Í norsku leiðinni má telja tap þessa árs fram á …
Í norsku leiðinni má telja tap þessa árs fram á móti hagnaði fyrri ára. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forystumenn stjórnarflokkanna kynna í dag aðgerðir til að örva hagkerfið eftir tekjufall vegna kórónuveirufaraldursins. Meðal þeirra er að fresta skattgreiðslum fyrirtækja. Þá verður fjárfesting hins opinbera aukin frá því sem boðað var.

Heimildarmaður blaðsins sem þekkir til málsins sagði gjaldheimtu jafnvel verða frestað fram á næsta ár. Með þessu yrði brugðist við hruni í eftirspurn í hagkerfinu. „Aðgerðirnar miða að því að koma til móts við fyrirtækin og koma þeim í gegnum skaflinn. Þetta eru ekki síðustu aðgerðirnar sem verða kynntar. Menn vilja enda ekki klára öll skotin í byssunni strax,“ sagði hann. Fleiri aðgerðir verði kynntar á næstu vikum þegar staðan skýrist.

Viðmið um ríkisaðstoð

Jafnframt sé verið að ganga frá viðmiðum um aðstoð til fyrirtækja. Með þeim verði fyrirtækjum auðveldað að leita fyrirgreiðslu hjá viðskiptabönkum. Hins vegar verði fyrirtæki undanskilin ef rekstrarerfiðleikar eru ekki tilkomnir vegna þessara aðstæðna. Meðal annars verði horft til þess hvort skuldsetning sé tilkomin vegna annarra þátta en rekstrar. Meðal annars verði skoðað hvernig Norðmenn og Danir hafi miðað við tiltekið tekjufall. Ætlunin sé að reglurnar verði gagnsæjar þannig að ekki þurfi að koma upp vafamál um hver uppfylli skilyrðin.

Tugir milljarða í bætur

Þingið samþykkti í gær frumvarp ríkisstjórnarinnar um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða skertu starfshlutfalli. Taldi heimildarmaður blaðsins vel sloppið ef hlutabætur vegna tekjubrests fyrirtækja yrðu undir 20 milljörðum til 1. júní. Samanlagt myndu bæturnar og greiðsluskjólið létta verulega undir fyrirtækjum eftir mikið tekjufall. Annar heimildarmaður blaðsins, sem þekkir líka vel til málsins, sagði aðgerðirnar myndu hafa mikla þýðingu fyrir fyrirtækin í landinu. Eftirspurn hefði hrunið algerlega á mörgum sviðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert