„Heimurinn breytist við svona áfall“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Hörpu í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi fyrr í dag kynnt stærstu efnahagsaðgerðir í Íslandssögunni, sem hljóða upp á 230 milljarða króna og nema 7,8% af landsframleiðslu, vegna stöðunnar sem komin er upp í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar er henni ljóst að það gæti þurft að grípa til enn frekari aðgerða því það er ekki hægt að segja nákvæmlega fyrir um áhrif heimsfaraldursins á efnahag Íslands og heimsins segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Aðgerðirnar voru kynntar af forystumönnum ríkisstjórnarflokkana á blaðamannafundi í Hörpu í dag undir yfirskriftinni Viðspyrna fyrir Ísland og eru þær tíu talsins. Þær eru þríþættar og miða að því að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja, verja grunnstoðir samfélagsins og skapa öfluga viðspyrnu fyrir efnahagslífið.

„Við erum annars vegar með beinum framlögum að ábyrgjast að tryggja afkomu fólks eins og með hlutastarfaleiðinni og hins vegar að ábyrgjast að bankarnir og fjármálafyrirtæki geti lánað og veitt viðskiptavinum sínum fyrirgreiðslu,“ segir Katrín í samtali við mbl.is og tekur fram að vinna að frekari aðgerðum sé þegar hafin.

„Til að mynda er ljóst núna að það verður töluvert atvinnuleysi þrátt fyrir hlutastarfaleiðina sem við reiknum með að framlengja. Við erum einnig að horfa í að fara í markviss menntunarúrræði fyrir ólíka hópa og svo erum við auðvitað að fara í fjárfestingar til lengri tíma og þó að átakið hefjist á þessu ári miðum við það að það haldi áfram á árunum 2021 og 2022,“ bætir hún við.

Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson á blaðamannafundinum …
Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðgerðunum fylgja skilyrði og ábyrgð

Efnahagsaðgerðirnar eru hannaðar út frá þeim sviðsmyndum sem liggja fyrir og byggjast á miklum samdrætti annars vegar og töluvert miklu atvinnuleysi hins vegar. Það er því skýr fókus á að tryggja atvinnu og afkomu auk þess að hjálpa fyrirtækjunum í landinu. Þá er verið að fjárfesta í tækniþróun, rannsóknum og skapandi greinum og með því er horft til efnahagslífs framtíðarinnar og grænna lausna.

Aðgerðunum fylgja ákveðin skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla og ábyrgðin sem lögð er á fjármálafyrirtæki er því mikil þegar kemur að því að ákveða hvaða fyrirtæki muni njóta þess svigrúms sem aðgerðirnar skapa. Fyrirtækin verða einnig að vera lífvænleg eða sýna fram á heilbrigðan rekstur.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/21/fyrirtaeki_sem_thurfa_adstod_telja_i_tugum_prosenta/

„Fjármálafyrirtæki þurfa að setja sér viðmið um það hvernig þau munu nýta allt það svigrúm sem þau eru til að mynda að fá með aðgerðum Seðlabankans til að veita viðskiptavinum fyrirgreiðslu. Þau auðvitað þekkja sína viðskiptavini vel og ríkið fer ekki að velja og hafna í því.“

„En það verða líka sett ströng skilyrði og það sem við erum að horfa á er í fyrsta lagi skilyrðið að aðstæður núna hafi haft áhrif á rekstur viðkomandi fyrirtækis, að sú fyrirgreiðsla sem fyrirtækið njóti nýtist til að greiða laun, aðföng og leigu en ekki til þess að taka arð út úr fyrirtækjum svo dæmi sé tekið,“ útskýrir hún.

Ýmis sjónarmið munu koma upp í meðferð Alþingis

Spurð hvort stjórnarandstaðan hafi ekki fengið sæti við borðið segir hún að aðgerðirnar hafi verið mótaðar á skömmum tíma en ríkisstjórnin hafi þó fundað tvisvar með stjórnarandstöðunni í vikunni, bæði á mánudag og laugardag. Í svona aðstæðum sé unnið hratt og það þekki allir sem hafa verið í pólítík.

„En í aðgerðunum má greina mörg þau sjónarmið sem hafa endurómað í málflutningi ólíkra flokka á Alþingi. Við hittum þau í morgun til að gera þeim grein fyrir þessum aðgerðum og mér fannst það bara mjög jákvæður fundur,“ segir hún og heldur áfram:

„Ég veit að það koma upp ýmis sjónarmið og þingleg meðferð gerir málunum yfirleitt gott. Hún er ekki til skrauts svo ég segi það líka þótt við séum að vinna málin hratt – hún skipti svo sannarlega máli í síðustu viku. Við leggjum mikið upp úr því að halda öllum eins upplýstum og mögulegt er.“

Stolt af því hvernig samfélagið hefur brugðist við

Katrín tekur það fram að staðan sé eðlisólík þeirri sem var uppi í hruninu árið 2008 enda sé staðan ekki sú að einstaklingar hafi ekkert á milli handanna til að eyða heldur hafi eftirspurn hrunið vegna þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í baráttu gegn faraldrinum.

„Það sem er ólíkt þessu og fyrri kreppum er að við erum ekki að eiga við þekktar aðstæður heldur lífveru sem engin vopn eru til gegn enn sem komið er nema þær aðgerðir sem miða að því að takmarka samneyti á milli manna – það hefur auðvitað gríðarleg áhrif á okkar hagkerfi þannig að þess vegna segi ég að þetta sé eðlisólíkt,“ útskýrir hún og tekur fram að hún sé gríðarlega stolt af að lifa í samfélagi sem hefur náð að standa vel saman í yfirstandandi verkefni.

„Ég held að heimurinn breytist við svona áfall og ég er mjög stolt af við höfum haldið mjög fast í okkar lýðræðislegu hefðir í okkar ákvörðunum og lagt mikið traust hvert á annað,“ segir hún að lokum.

Fréttin var uppfærð klukkan 16:24.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Kórónuveiran

4. apríl 2020 kl. 13:14
1417
hafa
smitast
396
hafa
náð sér
45
liggja á
spítala
4
eru
látnir