Lífeyrissjóðirnir hafa ekki lækkað

Hús verslunarinnar.
Hús verslunarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa ekki tekið ákvörðun um hvort og með hvaða hætti stýrivaxtalækkun Seðlabanka Íslands muni sjá stað í vaxtakjörum sjóðfélagalána. En Seðlabankinn hefur í tveimur skrefum lækkað meginvexti sína um 1 prósentu á síðustu tveimur vikum.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins gefur ekkert upp um áætlanir sjóðsins. „Eðli málsins samkvæmt get ég ekki svarað þessu, þá væri aðili úti í bæ orðinn innherji. Þetta mun tíminn leiða í ljós,“ segir Harpa í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, benti á að stjórn sjóðsins tæki ákvarðanir um vexti sjóðfélagalána og að næsti stjórnarfundur væri áætlaður 26. mars. Benti hann þó á að stjórnin væri nýbúin að taka ákvörðun um vaxtalækkun. 16. mars sl. var tilkynnt að stjórn sjóðsins hefði lækkað vexti verðtryggðra og óverðtryggðra lána. Lækkuðu óverðtryggð lán um 0,15% og verðtryggð lán um 0,10%. Í svari frá Lífeyrissjóði verslunarmanna sagði að stjórn sjóðsins kæmi saman í síðari hluta apríl. „Ef breytingar verða fyrir þann tíma þá verður það tilkynnt á vefsíðu sjóðsins.“

Viðskiptabankarnir þrír hafa allir tilkynnt um vaxtalækkanir sem nema frá 0,1% og upp í 0,5% eftir tegundum lána.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert