Tillögur um hertar aðgerðir á borði ráðherra

Svandís Svavarsdóttir, Þórólfur Guðnason og Alma Möller.
Svandís Svavarsdóttir, Þórólfur Guðnason og Alma Möller. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tillögur sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir vegna útbreiðslu kórónuveirunnar eru nú á borði heilbrigðisráðherra og verða þær ræddar á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Lagt er upp með að nýjar reglur taki gildi eftir helgi.

„Það er verið að leggja til hert samkomubann,“ segir Þórólfur. Í núgildandi banni, sem tók gildi á mánudag, eru samkomur með fleiri en 100 manns bannaðar. Aðspurður segir Þórólfur að endanleg tala liggi ekki fyrir, en hún geti verið svipuð og í Vestmannaeyjum, þar sem samkomubann miðast nú við tíu manns, eða rúmlega það. Hann telur þó ótímabært að ræða tillögurnar enda fari útfærslan eftir ákvörðun ráðherra.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, að til skoðunar væri að loka hárgreiðslustofum, snyrtistofum og öðrum fyrirtækjum þar sem mikil nánd er milli starfsmanns og viðskiptavinar. Þá væri líklegt að loka þyrfti sundlaugum og líkamsræktarstöðvum.

Fram kom á blaðamannafundi almannavarna í dag að til greina kæmi að herða reglur um skólahald, en það verður þó með óbreyttum hætti fyrri hluta vikunnar hið minnsta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert