568 smitaðir af kórónuveirunni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls eru 568 smitaðir af kórónuveirunni á Íslandi samkvæmt nýjum tölum á vefnum covid.is. Þetta er fjölgun um 95 frá því fyrir sólarhring og hefur því smituðum fjölgað um 318 síðustu fjóra daga.

Alls eru 6.340 í sóttkví en 1.066 hafa lokið sóttkví. Tekin hafa verið 10.118 sýni og tólf eru á sjúkrahúsi. Upplýsingar um fjölda smitaðra eru birtar á vefnum covid.is klukkan 11 á hverjum degi.

Þar kemur fram að alls eru 464 smitaðir á höfuðborgarsvæðinu og 4.171 í sóttkví. Á Suðurlandi eru 56 smitaðir og 707 í sóttkví. Á Norðurlandi vestra eru fimm smitaðir og 364 í sóttkví. Á Norðurlandi eystra eru fimm smit og 299 í sóttkví. Á Suðurnesjum eru 27 smitaðir og 268 í sóttkví. Á Austurlandi er enginn smitaður en 77 í sóttkví. Á Vestfjörðum er einn smitaður og 176 í sóttkví. Tveir eru smitaðir á Vesturlandi og þar eru 210 í sóttkví. Óstaðsettir eru átta smitaðir og 64 í sóttkví og fjórir útlendingar eru í sóttkví.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra boðar til upplýsingafundar fyrir blaðamenn klukkan 14:00 í dag.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir munu fara yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19, staðfestra smita hér á landi, aðgerða stjórnvalda o.fl.

Á fundinum verður sérstaklega beint sjónum að íþróttastarfi og mun Lárus L. Blöndal, forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, fara yfir áskoranir og verkefni íþróttahreyfingarinnar vegna COVID-19.

mbl.is