Persónuvernd unnið alla helgina

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Eggert Jóhannesson

Starfsmenn Persónuverndar hafa unnið að því alla helgina að yfirfara erindi Íslenskrar erfðagreiningar um nýtingu á niðurstöðum sýnatöku fyrirtækisins til vísindarannsóknar. Þetta segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, í samtali við mbl.is.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fór hörðum orðum um málsmeðferð stofnunarinnar í færslu sem hann birti á Facebook í dag. Þar sakar hann Persónuvernd um að fremja glæp, sem felist í því hve langan tíma meðferð stofnunarinnar taki. Gagnrýndi hann stofnunina fyrir að vinna ekki um helgar, en sem fyrr segir á sú gagnrýni ekki við rök að styðjast. 

„Klukkan 12:45 á föstudag fengum við tilkynningu um vísindarannsóknina,“ segir Helga. Aðspurð segir hún að starfsmenn Persónuverndar vinni alla jafna ekki um helgar, en það sé að sjálfsögðu gert nú í ljósi aðstæðna. Auk erindis Íslenskrar erfðagreiningar hafi önnur brýn erindi, meðal annars frá almannavörnum og sóttvarnalækni, verið unnin utan hefðbundins vinnutíma. Þá hefur stofnunin skuldbundið sig til að skila niðurstöðum á morgun.

Samkvæmt lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði ber Persónuvernd að kanna öryggi persónuupplýsinga við gerð slíkra rannsókna og athuga hvort meðferð þeirra fer að persónuverndarlögum. Fyrir tveimur vikum, er skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir kórónuveirunni hófst, var upphaflega talið að fyrirtækið þyrfti leyfi Persónuverndar fyrir framkvæmdinni, en síðar fallið frá því í ljósi þess að ekki væri um vísindarannsókn að ræða.

mbl.is