Borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vill tryggja að opinberir aðilar geti …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vill tryggja að opinberir aðilar geti brugðist við þegar hættuástand skapast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það verður borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila að gegna störfum í almannaþágu almannavarna á hættustundu ef frumvarp sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi í dag nær fram að ganga.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að við lög um almannavarnir bætist ákvæði um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila. Í ákvæðinu segir:

- Það er borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu.

- Opinberum aðilum er heimilt að fela starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur til þess að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu.

- Starfsmenn halda óbreyttum launakjörum við slíkar aðstæður.

Mikilvægt að hægt sé að sinna forgangsverkefnum

Með frumvarpinu er lagt til að tryggt verði svigrúm opinberra aðila til að færa starfsmenn milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu og þannig verði hægt að fara fram á breytingu á starfsskyldum og starfsstöðvum viðkomandi starfsmanna eftir þörfum.

„Á hættustundu er mikilvægt að opinberir aðilar hafi svigrúm til þess að nýta mannauð sinn í þau verkefni sem njóta forgangs hverju sinni. Þá geta starfsskyldur, starfsaðstæður og starfsstöðvar starfsmanna þurft að taka tímabundnum breytingum. Verkefni sem njóta forgangs hverju sinni eru m.a. verkefni sem lúta að því að halda megi úti nauðsynlegri almannaþjónustu,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

mbl.is