Komið í veg fyrir að fólk hamstri lyf

Lyf.
Lyf. Ljósmynd af vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Til að sporna við því að einstaklingar hamstri lausasölulyf eða fólk með fjölnota lyfseðlataki út margar afgreiðslur samtími hefur heilbrigðisráðherra sett reglugerð sem felur í sér takmarkanir á afhendingu lyfja.

Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir að slík háttsemi geti valdið tjóni með því að skapa lyfjaskort og þannig stefnt heilsu og jafnvel lífi fólks í hættu að óþörfu.

Heilbrigðisráðuneytið hefur jafnframt sent læknum og lyfjafræðingum bréf þar sem reglugerðarbreytingin er kynnt og óskað eftir samvinnu um framkvæmdina.

Í bréfinu segir meðal annars: „Við þær sérstöku aðstæður sem uppi eru í samfélaginu í dag leitast heilbrigðisyfirvöld hér með eftir samvinnu við heilbrigðisstarfsfólk sem ávísa og afgreiða lyf samkvæmt reglugerð nr. 1266/2017, um ávísun og afgreiðslu lyfja. Meðfylgjandi breyting á ofangreindri reglugerð til bráðabirgða hefur verið undirrituð af ráðherra og verður birt í dag. Tilgangur með setningu hennar er að koma í veg fyrir að fólk geti hamstrað margra mánaða lyfjabirgðir sem leitt getur til þess að aðrir muni líða lyfjaskort.

Lyfjastofnun og landlæknir hafa áður beint tilmælum til almennings um að draga úr lyfjahömstrun. Með reglugerðarbreytingunni nú eru lögð til ákvæði til bráðabirgða sem loka á að fleiri en ein lyfjaávísun á sama lyf og styrkleika sé gild hverju sinni í lyfjaávísunargáttinni. Jafnframt er lagt til að Lyfjastofnun geti takmarkað afgreiðslu lyfja þegar sérstakar ástæður sem varða almannaheill og lýðheilsu mæla með því.

mbl.is