„Þetta er alveg með ólíkindum — hvað er að?“

Kári Stefánsson er vægast sagt ósáttur við framgöngu Persónuverndar vegna …
Kári Stefánsson er vægast sagt ósáttur við framgöngu Persónuverndar vegna úrvinnslu umsóknar Íslenskar erfðagreiningar um leyfi til vísindarannsóknar. Mynd/mbl.is

„Nei það hefur ekki borist svar frá Persónuvernd en svar Helgu Þórisdóttur er svo hlægilegt að það eru ekki til orð til að lýsa því.“

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is spurður hvort Persónuvernd hafi svarað umsókn ÍE um leyfi til vísindarannsóknar og um svör Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, við gagnrýni Kára á stofnunina í gær.

Kári sakaði Persónuvernd um að fremja glæp með því að draga það yfir helgi að svara umsókn ÍE um leyfi til vísindarannsóknar svo að hægt sé að birta niðurstöður skimana ÍE fyrir kórónuveirunni í ritrýndu vísindatímariti.

Helga Þórisdóttir svaraði þeirri gagnrýni og sagði að starfsfólk Persónuverndar hafi verið að störfum alla helgina að yfirfara erindi Íslenskrar erðfagreiningar. Það sé alla jafna ekki unnið um helgar en í ljósi aðstæðna hafi það verið gert og stofnunin hafi skuldbundið sig til að skila svari sínu í dag.

En Kári gefur lítið fyrir þau svör, eða jafnvel ekki neitt. Hann segir að það sé hlutverk vísindasiðanefndar að fara yfir umsóknir um vísindarannsóknir, greina þær í smáatriðum og veita leyfi eða ekki.

„Þetta er bara djók“

Persónuvernd eigi að fara yfir þá vinnu og kanna hvort að það sé við samræmi við persónuverndarlög nema eitthvað eitthvað nýtt sé í umsókninni. Í þeim tilvikum eigi Persónuvernd að fara ofan í umsóknina í smáatriðum.

„Umsóknin sem við sendum inn var nákvæmlega eins og við höfum gert hundrað sinnum og ef vilji er fyrir hendi á að vera hægt að fara yfir þetta á örfáum mínútum. Þetta er bara djók,“ segir Kári og endurtekur: „Þetta er bara djók.“

Spurður um ummæli Helgu að starfsfólk Persónuverndar hafi verið að störfum alla helgina við að fara yfir umsókn Íslenskrar erfðagreiningar segist hann ekki telja að það geti staðist.

„Það ósköp einfaldlega getur ekki verið satt, því þetta á ekki að taka nema örfáar mínútur. Þetta er bara djók, þetta er bara Helga Þórisdóttir að sýna að hún hafi vald,“ segir hann.

Allur heimurinn að fara á hliðina

„Við erum í faraldri sem er að setja allan heiminn á hliðina, hann er að rústa efnahagslífi Íslendinga. Menn bíða með öndina í hálsinum eftir þessum mikla skelli þegar farsóttin nær hámarki,“ segir Kári og bætir við:

„Menn eru að reyna finna út hvaða leiðir er hægt að nota til að minnka útbreiðslu sjúkdómsins og það eina sem við erum að reyna gera er að búa til dýpri skilning á sjúkdómnum og deila því með umheiminum því hann þarf á því að halda.“

Þá bendir Kári á að Evrópusambandið, þaðan sem persónuverndarlögin eru uppruninn, hafi nú þegar gefið út yfirlýsingu þess efnis að á meðan verið er að takast á við þennan heimsfaraldur þá eigi að víkja persónuverndarsjónarmiðum til hliðar.

„Og heldur þú virkilega að það þurfi þriggja daga vinnu Persónuverndar til þess að fara yfir svona umsókn? Þetta er alveg með ólíkindum – hvað er að? Þetta er gjörsamlega úr takti við allt annað í samfélaginu. Allir í samfélaginu eru að leggjast á eitt og gera sitt besta,“ segir hann að lokum.

Helga Þórisdóttir sagðist í samtali við mbl.is standa við svör sín frá því í gærkvöldi. Hún ætlar ekki að tjá sig frekar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert