„Við komumst í gegnum þetta“

„Við komumst í gegnum þetta,“ segir Björn Leifsson, eigandi World Class, en loka þarf öllum líkamsræktarstöðvum fyrirtækisins í kvöld þegar frekari takmarkanir á samgangi fólks taka gildi. Hann segir aðgerðir stjórnvalda hjálpa við að fleyta rekstrinum í gegnum erfiðleikana en um 300 manns starfa hjá fyrirtækinu og þeir fara flestir á hlutabótaleiðina þar sem starfsfólk fær allt að 75% launa sinna greidd sem atvinnuleysisbætur.  

Í myndskeiðinu er rætt við Björn um stöðuna sem upp er komin.

Í morgun var fámennt í Laugum, líkamsræktarstöð World Class í Laugardal, en Björn segir aðsóknina hafa hrunið í síðustu viku um 50-60%. Fólk yfir fimmtugu segir hann varla hafa sést í stöðvunum frá því að kórónuveiran fór að breiðast út fyrir alvöru hérlendis. „Fólk er greinilega farið að vera heima að passa sig,“ segir Björn.

Nýta lokunina til framkvæmda

Fólk mun geta nýtt tímann sem stöðvarnar eru lokaðar til að lengja áskrift sína sem því nemur en Björn segir alveg skýrt að engar undanþágur verði gefnar frá því að hleypa einstaklingum eða litlum hópum í inn í World Class meðan á lokuninni stendur. Mikið hafi verið spurt um það en einnig höfðu margir áhuga á að leigja tæki meðan á lokuninni stendur. Lokanirnar verða nýttar til framkvæmda og viðhalds að sögn Björns og skapa þannig atvinnu fyrir iðnaðarmenn á meðan ástandið varir.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman