Atvinnulíf í hægagang

mbl.is/​Hari

Undirbúningur er hafinn að því að leggja stærstum hluta flota Icelandair, en nánast allt flug til og frá landinu liggur nú niðri vegna kórónuveirunnar og ráðstafana sem gerðar hafa verið vegna faraldursins.

Tilkynnt var í gær um víðtækar ráðstafanir til að tryggja stöðu flugfélagsins í gegnum yfirstandandi þrengingar, en umfangið í starfsemi félagsins er nú aðeins um 14% miðað við áætlanir. Alls var 240 starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp í gær og hlutfall starfa og launa annarra lækkað.

Gengi hlutabréfa í Icelandair lækkaði um 22% í gær, sem eru viðbrögð markaðarins við aðstæðum. Greinendur telja ekki nóg að gert hjá Icelandair en á móti kemur að stjórnendur fyrirtækisins útiloka ekki frekari hagræðingaraðgerðir verði þörf á slíku.

Vegna faraldursins fellur hefðbundin starfsemi tannlækna niður frá og með deginum í dag, það er öll önnur en neyðarþjónusta. Þetta er gert til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldurs, en mikil smithætta er í tannlækningum vegna nálægðar við sjúklinga. Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, segir stéttina aldrei hafa upplifað þvílíka röskun á starfsemi sinni. Þá stefni í skort á nauðsynlegum hlífðarbúnaði sem tannlæknar noti við vinnu sína. „Við þurfum meðal annars að hafa andlitsgrímur og hanska en það hefur skapast skortur á þeim búnaði á heimsvísu. Það er líka áhyggjuefni,“ segir Jóhanna Bryndís.

Nægar birgðir nauðsynja

Vegna ríkjandi ástands er fylgst grannt með því hvort í landinu sé nægar birgðir af helstu nauðsynjum, það er mat, lyfjum og eldsneyti. Staðan á þessu er sögð góð. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar sem rekur meðal annars N1 og Krónuna, segir ekkert hökt hafa verið á flutningi aðfanga til landsins. Olíuskip sé í höfn í Reykjavík og verið sé að fylla á geymslutanka í Örfirisey. Það eina sé að tafir hafi orðið á flutningum á ávöxtum frá Kaliforníu, enda liggi flug milli Íslands og vesturstrandar Bandaríkjanna niðri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert