Lést af völdum kórónuveirunnar

mbl.is

Fyrsti Íslendingurinn er látinn af völdum kórónuveirunnar, skv. upplýsingum Morgunblaðsins. Um er að ræða eldri konu og bar andlát hennar að í gær.

Þetta er annað mannslátið á Íslandi sem tengja má kórónuveirunni, en í hinu tilvikinu átti í hlut erlendur ferðamaður staddur á Húsavík.

Alls hafa nú 588 manns á landinu smitast af kórónuveirunni, 12 eru á sjúkrahúsi, 6.816 eru í sóttkví og 51 hefur náð sér, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Á vef Landspítalans er andlát konunnar staðfest:

„Mánudaginn 23. mars 2020 lést á smitsjúkdómadeild Landspítala liðlega sjötug kona, sem glímt hafði við langvarandi veikindi. Andlátið varð í kjölfar veikinda konunnar af völdum Covid-19-sjúkdómsins. Landspítali vottar fjölskyldu hennar samúð og virðingu.“

Sonur konunnar fjallar um andlát móður sinnar á Facebook: 

„Sjálfsagt er flestum að verða ljóst að litla landið okkar hefur þurft að þola sitt fyrsta dauðsfall af völdum Covid 19 veirunnar, þó dauðsfall í fjölskyldunni sé mikið einkamál fyrir flesta þá langar mig að sem flest okkar læri eitthvað af þessu.

Þetta er mamma mín, hún barðist í heila viku fyrir lífi sínu smituð af Covid-19 veirunni, hún var í áhættuflokki eins og mjög margir aðrir. Þrír úr minni fjölskyldu höfðu tækifæri til að kveðja hana fyrir endalokin. Tveir þeirra vegna þess að þeir eru smitaðir af veirunni og ein sem lagði sig í mikla smithættu, ég hefði alveg þegið að fá að horfa í augu hennar og segja bless en vegna aðstæðna var það ekki hægt. Í staðinn fæ ég að minnast hennar eins og ég sá hana síðast og fékk að kveðja hana í gegnum símann og ekkasog. Það er alveg kominn tími til að þessi þjóð og þegnar hennar taki þessu alvarlega og hætti að haga sér eins og hálfvitar,“ skrifar hann á Facebook. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »