Mikið mæðir á velferðarsviði

Um 5% starfsmanna velferðarsviðs eru í sóttkví og hefur þurft …
Um 5% starfsmanna velferðarsviðs eru í sóttkví og hefur þurft að kalla út aukamannskap til að sinna skjólstæðingum hennar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls eru 135 starfsmenn velferðarsviðs borgarinnar í sóttkví og 5 í einangrun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Alls starfa um 3.000 manns á velferðarviði, sem rekur meðal annars hjúkrunarheimili, húsnæði fyrir fatlað fólk og gistiskýli.

Regína Ásvaldsdóttir, forstöðumaður velferðarsviðs borgarinnar, segir að allt kapp sé lagt á smitvarnir þar sem mjög erfitt sé að þjónusta íbúa í íbúðakjörnum sem eru smitaðir. Aðeins hefur einn vistmaður á heimilum velferðarsviðs greinst með kórónuveiruna. Sá býr í búsetukjarna og þurfti stór hluti starfsfólks í kjölfarið að fara í sóttkví. Kalla þurfti inn nýtt starfsfólk sem sinnir sjúklingnum í viðeigandi hlífðarbúnaði.

Tekin var ákvörðun um að loka félagsmiðstöðvum og dagdvölum eldri borgara auk stærri starfsstaða fyrir fatlaða er neyðarstigi var lýst yfir 6. mars. „Við fórum snemma í þessar aðgerðir, nokkurs konar eigið samkomubann,“ segir Regína og segist telja að vel hafi takist til.

Vegna skertar þjónustu sviðsins þarf að bjóða upp á einstaklingsbundnar lausnir fyrir sem flesta skjólstæðinga og mæðir því mikið á starfsmönnum sviðsins, segir Regína. Þá hefur opnunartími í gisti- og neyðarskýlum verið aukinn, auk þess að viðbótarrými hefur verið tekið á leigu á Grandanum, til að uppfylla betur viðmið um sóttvarnir.

mbl.is