Óþægilegt en reynir að brosa

Hluti hópsins á leið í heilsufarsskoðun.
Hluti hópsins á leið í heilsufarsskoðun. Ljósmynd/Kristjana Motzfeldt

Um þrjátíu Íslendingar eru strandaglópar á Balí eftir að þeim var ekki hleypt um borð í flugvél í gær vegna kórónuveirunnar. Þau áttu að millilenda í Taílandi en þarlend yfirvöld vildu óvænt ekki taka við þeim.

Tinna Vibeka, sem starfar hjá KH veitingum sem annast veitingaþjónustu í Hörpu, er einn Íslendinganna. Hún er þó ekki hluti af þeim þrjátíu manna hópi á Balí sem fór þangað í hópferð með fararstjóra. Kærastinn hennar og fjölskyldan hans eru aftur á móti hluti af hópnum og flaug hún út til þeirra síðar eftir að það dró úr starfseminni í Hörpu vegna veirunnar.

Í verri stöðu en hinir

Spurð út í stöðuna segist hún vera í miklu verri stöðu en þau vegna þess að hún er ekki með fararstjóra og ekki inni í þeirra pakka. Hún hefur því þurft að ráða töluvert fram úr hlutunum sjálf en hefur þó fengið hjálp frá íslenska hópnum og fararstjóranum. „Thai Airways ber ábyrgð á því að við komumst heim. Ég hafði sjálf samband við utanríkisráðuneytið og þau bera ábyrgð á þessu. Við erum bara að bíða,“ segir Tinna.

Ljóst er að Íslendingarnir komast ekki heim í dag, auk þess sem gamlársdagur er í Indónesíu á morgun og þá liggur allt niðri. Enginn má fara út á götu vegna hans og verða allir inni á hótelherbergjum sínum.

Í rútunni með andlitsgrímur.
Í rútunni með andlitsgrímur. Ljósmynd/Kristjana Motzfeldt

Múgæsingur á flugvellinum 

Ný lög voru sett á í Taílandi sama dag og þau áttu að fljúga þaðan. Enginn mátti koma til landsins nema að vera kominn með niðurstöðu úr COVID-19-prófi. Að sögn Tinnu er fólk sem er ekki veikt ekki prófað á Balí vegna veirunnar og því mega þau ekki einu sinni fara í það. Þau þurftu einnig að framvísa vottorði frá lækni og fóru á sjúkrahús í heilsufarsskoðun vegna þess.

„Það var alveg múgæsingur þarna,“ segir Tinna, spurð út í stöðuna á flugvellinum þegar þau komust að því að fengju ekki að fara til Taílands, nema að skilyrðunum uppfylltum. Bætir hún við að margir hafi verið grátandi. Aðeins þrír Taílendingar fóru um borð í flugvélina og sitja því um 150 farþegar fastir á Balí og bíða átekta.

Tinna á Balí ásamt kærasta sínum.
Tinna á Balí ásamt kærasta sínum. Ljósmynd/Benjamín Bjarnason

Fjölskyldan stressuð 

Hún segir íslenska hópinn vera mjög rólegan og jákvæðan þrátt fyrir erfiða stöðu. „Ég kom hingað seint og var glöð að fá aukadag hérna úti en auðvitað er þetta óþægilegt. Maður veit ekkert. Fjölskyldan manns er stressuð og auðvitað vill maður vera heima á Íslandi, það er langöruggast.“

Hún þakkar fyrir að vera í hópi Íslendinga sem hefur fararstjóra sem lætur alla vita reglulega af stöðu mála. „Ég reyni bara að brosa. Þetta er ekki heimsendir,“ segir hún og vonar að það leysist úr málum sem allra fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert