Skipulag til að tryggja matvælaframleiðslu

Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, segir að skipulagi hafi verið komið á laggirnar til þess að tryggja matvælaframleiðslu í landinu, sérstaklega gagnvart þeim fyrirtækjum sem teljast kerfilega- og efnahagslega mikilvæg vegna öflunar útflutningstekna og matvælaöryggis.

Nær það til framleiðslu sjávarafurða, auk mjólkur-, kjöt- og grænmetisframleiðslu.

Málaflokkar sem heyra undir ráðherrann voru til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. „Þessu hefur verið komið í ákveðnar skorður og heilbrigðisráðherra hefur gengið frá þeim málum á grundvelli samkomulags og vinnu sem hefur átt sér stað undanfarna daga og þar til í gærkvöldi," segir Kristján Þór. 

„Ég hef reglulega gert ríkisstjórninni grein fyrir stöðunni í bæði íslenskum sjávarútvegi og landbúnaði og hef verið í mjög góðu sambandi við fólk í þessum greinum. Meðal annars til að kalla eftir reglulegum upplýsingum um þá þróun sem er að eiga sér stað frá degi til dags,“ útskýrir ráðherrann.

mbl.is