„Við erum ekkert að grínast með þetta“

Frá blaðamannafundi í dag.
Frá blaðamannafundi í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði að ekkert í samfélaginu virkaði eins og það gerir venjulega nú þegar hert samkomubann hefur tekið gildi á landinu. Fólk yrði að virða þær reglur sem væru í gildi.

Hert samkomubann, þar sem einungis 20 manns mega koma saman, tók gildi eina mínútu yfir miðnætti í nótt. Auk þess þarf að tryggja að nánd milli manna sé að minnsta kosti yfir tveir metrar við öll minni mannamót og að aðgengi að handþvotti og hand­spritti sé gott.

Víðir sagði á daglegum blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar að þeim hefði borist talsvert af tilkynningum þar sem menn virtust ekki alveg komnir í gírinn.

„Það er mjög mikilvægt að það sé farið eftir þessu. Við erum ekkert að grínast með þetta,“ sagði Víðir. Hann bæti við að það sæist á fjölda undanþágubeiðna vegna samkomubannsins að fólk væri ekki alveg að átta sig á stöðu málsins.

„Fólk verður að taka þessu alvarlega og fara eftir leiðbeiningum,“ sagði Víðir. Viðurlög við brotum skýrast fljótlega en Viðir sagði að beðið væri upplýsinga frá ríkissaksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert